152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[16:59]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni nefndar fyrir greinargóða álitsgerð. Mig langar að tala aðeins um hluta af þeim breytingum sem lagðar eru til um skipan ráðuneyta og verkefni þeirra, sem mér fannst ekki koma fram nægilega vel hvort nefndin hefði skoðað. En í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu kemur fram að félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneyti mun fara með málefni innflytjenda og flóttafólks og tekur jafnframt við þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd frá dómsmálaráðuneytinu. Ég held að við séum öll sammála um að þarna sé um að ræða góðan flutning á verkefnum milli ráðuneyta þar sem þetta á miklu meira heima undir félagsmálaráðuneyti en dómsmálaráðuneyti. En því miður segir í síðustu málsgreininni í greinargerð um þetta ráðuneyti:

„Dómsmálaráðuneytið mun áfram fara með réttaraðstoð og hefðbundna stjórnsýslu við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hér á landi.“

Nú kom fram hér fyrr í dag mikil gagnrýni á dómsmálaráðuneytið og Útlendingastofnun, að þau hafi ekki staðið sig sem skyldi í þessum málaflokki. Mig langar að vita hvort nefndin ræddi það að leggja til að færa þetta allt yfir til félagsmálaráðuneytisins.