152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé alger óþarfi að vorkenna mér fyrir að tala fyrir þessari þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að það eigi að vera hlutverk ríkisstjórna að leggja línur um það hvernig skipta eigi málefnum innan Stjórnarráðsins hverju sinni. Ég tel reyndar að í raun ætti hver ríkisstjórn að geta skipt þeim málum eins og hún telur best hverju sinni. Fyrir allmörgum árum var sú leið samþykkt að þetta skyldi gert í formi þingsályktunartillögu og þess vegna stend ég hér og mæli fyrir nefndaráliti.

Það er auðvitað þannig, frú forseti, að þegar verið er að gera breytingar má færa rök með og á móti þeim. Þess vegna reyndi ég í ræðu minni að reifa ólík sjónarmið sem komu fram fyrir nefndinni. Þegar verið er að gera breytingar er að mínu mati augljóst að það þarf að fylgjast með að þær skili þeim árangri sem lagt var upp með. Ég tel að hér sé um góða tillögu að ræða sem eigi að samþykkja, en svo er það að hluta til háð pólitískri sýn hvers og eins hvernig hvert og eitt okkar, og jafnvel hver og einn flokkur, myndi sjálft kjósa að haga þessum málum.