152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Sigmar Guðmundsson) (V):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 2. minni hluta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þessari yfirferð okkar um þetta mál, þingsályktunartillögu um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Við erum fjögur á þessu minnihlutaáliti, þ.e. ég, Sigmar Guðmundsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir og svo áheyrnarfulltrúi nefndarinnar, Bergþór Ólason. Þetta mál er, eins og búið er að rekja hér, búið að vera til meðferðar hjá nefndinni frá því fyrir jól og búið að kalla marga gesti til nefndarinnar og kalla eftir umsögnum og þær hafa margar borist. Ég vil nota tækifærið og þakka því fólki sem lagði hönd á plóginn við vinnuna og sömuleiðis nefndarmönnum öllum. Þetta var unnið í miklu bróðerni og skynsamlega gert á alla kanta. Síðan hafa menn auðvitað alls konar skoðanir á því hvernig þetta á að líta út á endanum.

Þetta er risavaxið mál og það sem ég ætla að gera í þessari yfirferð minni er að fara yfir og reifa helstu sjónarmið okkar fjögurra sem stöndum að þessu áliti. Við erum svo sem ekkert í álitinu að tala neitt sérstaklega um það hvort þessi tiltekna stofnun eigi heima undir þessu ráðuneyti frekar en einhverju öðru eða hvort þetta verkefni eigi að vera hér en ekki þar. Við gerum það frekar hvert um sig í ræðum okkar enda getur verið áherslumunur á því hvað mönnum finnst þar sem við komum öll úr mjög ólíkum flokkum.

Ég ætla þá að fara yfir meginlínurnar í þessu öllu. Stórt er málið, það vantar ekkert upp á það. Við erum að ræða hér hvernig Stjórnarráðið sjálft eigi að líta út næstu fjögur árin. Það er ekki einkamál ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli fyrir alla að vel takist til. Við erum sammála minni hlutanum um að auðvitað verður stjórnarmeirihlutinn, ríkisstjórnin sjálf og meiri hlutinn á bak við hana á þingi, að bera ábyrgð á því hvernig þetta lítur út á endanum. Það leiðir því af sjálfu, af því að við erum ekkert endilega sammála öllu því sem verið er að leggja til, að við getum ekki stutt málið. En það skiptir gríðarlega miklu máli að vel takist til og við lítum þannig á að rauði þráðurinn í gegnum bæði þingsályktunartillöguna sjálfa, í gegnum umsagnir og orð gesta fyrir nefndinni, maður sér það mjög vel, sé að þrátt fyrir að þetta mál sé klætt í mjög faglegan búning þá er það fyrst og fremst pólitískt mál. Þetta er fyrst og fremst byggt á þeim grunni að verið er að bregðast við ákveðnum kosningaúrslitum eins og gjarnan er gert eftir kosningar. Þar breyttust hlutföll á milli flokka innan ríkisstjórnarinnar og því þurfti að fylgja eftir þegar kemur að því að skipa ráðherra og skipta verkefnum á milli flokkanna. Það er því enginn vafi í okkar huga að fyrst og síðast er þetta mál byggt á pólitík, valdahlutföllum og því að það þarf að bregðast við kosningaúrslitum frekar en að fram hafi farið einhver greining eða það verið rýnt eitthvað sérstaklega hvernig hlutum væri best fyrir komið.

Það er mjög mikið talað um að mjög jákvæðar breytingar fylgi þessu en enginn einhugur um það í nefndinni eins og kannski gefur að skilja. Við ætlum að játa ríkisstjórninni á hverjum tíma talsvert svigrúm til að móta Stjórnarráðið eftir þeim hugmyndum sem hún hefur um þá stefnumörkun sem fram eigi að fylgja, en þetta með faglegu vinnubrögðin stenst ekki og fellur eiginlega strax á fyrsta prófi þegar við komum að því hvernig þetta allt saman er ákveðið. Það er allt í lagi að fara aðeins yfir það vegna þess að það var gert í nefndinni. Menn voru að reyna að leiða í ljós nákvæmlega hvernig þetta allt saman þróaðist með þessum hætti. Þetta er auðvitað bara ákveðið í þriggja manna spjalli á milli formanna stjórnarflokkanna. Þannig verður þetta til. Þannig er þetta teiknað upp og þegar búið er að því þá er farið í ráðuneytin sjálf, í Stjórnarráðið, til sérfræðinganna og annarra sem gætu kannski lagt þar gott til og á þeim tímapunkti eru menn fengnir í útfærsluna. Það gefur manni strax mjög sterklega til kynna að þetta sé ekki endilega byggt á neinum sérstökum faglegum grunni. Við erum auðvitað vön því á Íslandi að ríkisstjórnir eru gjarnan myndaðar með þessum hætti en það var mjög áhugavert að fylgjast með annars vegar myndun ríkisstjórnar á Íslandi og hins vegar í Þýskalandi, hvað vinnubrögðin voru mismunandi einmitt hvað þetta varðar. Það er bara þannig að í Stjórnarráðinu er falin gríðarlega mikil þekking, bæði sérhæfð fagþekking en líka þekking á breytingastjórnun og öðru slíku, og það var ekkert í vinnu nefndarinnar sem sannfærði okkur um að þessir hlutir hefðu verið virkjaðir rétt þegar verið var að teikna upp þessar breytingar. Margar umsagnir sem hægt er að lesa um þetta styðja þetta mat okkar og sömuleiðis ummæli gesta á nefndarfundunum.

Síðan að þeirri stefnubreytingu sem er að eiga sér stað og við vildum aðeins koma inn á í þessu nefndaráliti. Það var mótuð stefna og ég hélt að menn hefðu verið svona ágætlega sammála um það, ekki síst innan eins stjórnarflokksins, VG, að það sem hefði verið lærdómurinn af hruninu, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom inn á áðan, væri að ráðuneytin voru of tætt fyrir hrun. Stjórnsýslan var svo dreifð, þetta voru svo veikar einingar að það vann gegn okkur þegar mikilvægt var að allir stæðu saman og reru í sömu átt í aðdraganda hruns og jafnvel í eftirmálum þess líka. Lærdómurinn þar var öflugri, stærri og sterkari einingar. Niðurstaðan núna í valdatíð þessarar ríkisstjórnar, og þá er ég ekki bara að tala um þetta kjörtímabil sem er nýhafið heldur líka það síðasta, er hins vegar að það er verið að fara í þveröfuga átt. Það er alltaf verið að fjölga ráðherrum og ráðuneytum. Þetta finnst okkur vinna gegn þeirri hugsun sem kom svo skýrt til okkar eftir hrun, að það er gott að hafa einingarnar sterkar. Þannig er hægt að byggja upp miklu meiri fagþekkingu, að ekki sé talað um það sem nefnt var áðan, að auðvitað býr það líka síðan til sterkari mótstöðu gegn ásókn sérhagsmunaafla. Við þekkjum það kannski ekki síst úr atvinnuvegaráðuneytunum. Þar hefur náttúrlega mjög oft verið talað um að sérhagsmunir eigi þar fullgreiða leið inn á kostnað almannahagsmuna. Þannig að það er eitt af því sem við vildum halda til haga í nefndaráliti okkar.

Svo vantar líka alla greiningu á því hvers vegna málum er komið fyrir með þessum hætti en ekki einhverjum öðrum. Það eru óljós orð á blaði um að markmiðið sé þetta en leiðin að markmiðinu er ekki neitt sérstaklega vörðuð eða rökstudd, hvorki í þingsályktunartillögunni sjálfri né kom það fram í nefndinni. Eins og ég sagði áðan má hafa mörg orð um að menn geti tekið einhverjar pólitískar ákvarðanir um það hvernig hlutirnir eiga að líta út en það er aldrei skaðlegt, alveg sama hvernig menn vilja teikna upp Stjórnarráðið út frá pólitískum hagsmunum, að viðhafa fagleg vinnubrögð. Það er vel hægt að gera og hefði vel verið hægt að gera betur í þessu máli. Það hefur farið fram mjög lítil umræða um þá tilhneigingu sem hefur orðið á síðari árum, að ráðuneytum er aftur að fjölga þvert ofan í það sem var talað um eftir hrun. Það er miður og það gerum við athugasemdir við í nefndaráliti okkar. Þetta er ákveðið af þremur formönnum stjórnarflokkanna og síðan hríslast þetta niður og sérfræðiþekkingin kemur inn á seinni stigum, sem er auðvitað ekki gott.

Það kom fram við vinnu nefndarinnar og líka í þeim umsögnum sem kallað var eftir að fjölmargir aðilar og stofnanir hafa áhyggjur af því að ekki sé verið að tryggja nægjanlega vel við tilflutning verkefna að þekking fylgi með í hugmyndum um nýja verkaskiptingu. Þetta var oft nefnt og gerðar athugasemdir við það og áhyggjur viðraðar um þetta og ekki laust við að það væri oft byggt á reynslu fólks sem lengi hefur starfað í stjórnsýslunni og þekkir mál langt aftur í tímann og hefur kannski staðið vaktina í gegnum fleiri en eina og jafnvel fleiri en tvær eða þrjár ríkisstjórnir. Það er eitthvað sem við ræddum svolítið í nefndinni og manni fannst, og við erum sammála um það, ekkert koma neitt sérstaklega sannfærandi svör um það hvernig ætti að tryggja að þekking og líka oft fjármagn færi með verkefnum á milli ráðuneyta. Orðið þjónusturof var til að mynda nefnt og rætt svolítið og ég held að það sé hugtak sem lýsir því ágætlega sem menn hafa áhyggjur af. Það var sem sagt verið að lofa því að þetta yrði tryggt en það var engin áætlun kynnt um hvernig það yrði gert. Það má kannski nefna að þarna vanti meira samráð, samtal, meiri aðkomu sérfræðinga og hagsmunaaðila. Við vísum líka svolítið til umsagnar BHM þar sem verið er að tala um að nýta sérfræðiþekkinguna og sagt er berum orðum að þekking sérfræðinga Stjórnarráðsins hafi ekki verið nýtt sem skyldi í undirbúningi breytinga á skipan ráðuneyta. Það getur síðan kallað á þjónusturof þegar menn passa ekki upp á að sérfræðiþekking færist á milli í takt við þessa nýju skipan.

Annar minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur enn fremur áhyggjur af uppskiptingu menntastiga sem ríkisstjórnin hefur boðað og að mati minni hlutans felur hið boðaða fyrirkomulag menntamála í sér afturför í viðhorfi gagnvart menntun almennt. Menntun snýst fyrst og fremst um velferð, þekkingu, framfarir og hamingju þjóðar en áherslur ríkisstjórnarinnar snúast meira bara um efnahagsleg markmið og að menntunin þjóni atvinnulífinu. Þetta verður ekki slitið í sundur okkar mati. Það er ekki nóg að hugsa einungis um efnahagslegu markmiðin í því tilliti. Það er einhver tilgangur með þessu og það er auðvitað að byggja upp þekkingu, tryggja framfarir og hlúa að almennri velferð í samfélaginu. Þetta þarf því allt að hanga saman.

Svo tökum við undir þær áhyggjur sem viðraðar hafa verið um stöðu starfsfólks við þessar breytingar. Það er svolítið nöturlegt að heyra af því að núna, mörgum vikum og mánuðum eftir að þetta allt saman er ákveðið, að fólk innan Stjórnarráðsins er enn þá í óvissu um hvað verður um það og hvort öll réttindi þess, skyldur og verkefni séu tryggð og hvernig það eigi að sinna þeim til lengri tíma. Það er ekki gott. Það er alveg hægt að taka undir það sem kom fram hjá hv. þingmanni áðan sem flutti meirihlutaálit úr nefndinni, að auðvitað fylgja öllum breytingum einhverjar áskoranir og það geta fylgt þeim óþægindi og jafnvel einhver óvissa, en tekur samt ekkert af þeim sem taka ákvarðanirnar og um véla að tryggja að þetta umrót og breytingar séu gerðar þannig að fólk þurfi ekki beint að óttast um stöðu sína eða búa við óvissu vikum saman. Þarna skorti augljóslega talsvert upp á samráð og beina upplýsingagjöf. Ég er svo sem ekkert að halda því fram, eða við, að þetta skipti meginmáli við starfsemi Stjórnarráðsins til lengri tíma en þetta eru hlutir sem verða að vera í lagi. Það var full ástæða til að hafa orð á því að það vantaði talsvert upp á það.

Annar minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lítur svo á að ef ríkisstjórn vill fara þá leið sem boðuð er í þessari þingsályktunartillögu þá stendur hún og fellur með því. Það er hæstv. ríkisstjórnar að teikna þetta upp. Við hefðum örugglega gert þetta öðruvísi og við fjórmenningar erum örugglega ekki einhuga um það nákvæmlega hvernig eigi að gera hlutina en þá undirstrika ég að það er einmitt þess vegna sem ríkisstjórn á hverjum tíma þarf að standa með þeim ákvörðunum sem hún tekur. Hennar er valdið til að gera þetta í skjóli þingmeirihluta síns og hennar verður þá ábyrgðin líka. Við fögnum því að það skuli vera einhugur í nefndinni um að fylgja eftir þessum breytingum. Það finnst okkur skipta verulegu máli. Við erum að tala mikið núna um hugmyndir, hvernig menn sjá hlutina fyrir sér, og við vitum ekki alveg nákvæmlega hvernig þetta allt saman mun þróast. En það að vera með stöðumat á þessu, fylgjast með þessu í gegnum kjörtímabilið, kalla eftir upplýsingum og fá upplýsingar innan úr ráðuneytunum og frá ríkisstjórninni um það hvernig hlutir hafa gengið fyrir sig. Það skiptir gríðarlega miklu máli og smellpassar við það hlutverk sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur innan Alþingis.

Stóra niðurstaðan er sú að þetta er umfangsmikil breyting á æðstu stjórnsýslu ríkisins og hún er tekin í þröngum hópi. Ákvörðunin er miklu meira á pólitískum forsendum en faglegum. Það er ekkert í sjálfu sér sem bannar það en það þarf ekki að hafa mörg orð um að því faglegri sem menn eru í vinnubrögðum sínum og nálgun, ekki síst þegar kemur að svona stórum og mikilvægum hlutum, þeim mun betri verður afurðin og því betri verk verða unnin innan Stjórnarráðsins og stjórnsýslan skilvirkari og betri í samhengi við það.

Við sem stöndum að þessu áliti ætlum því ekki að styðja þessa þingsályktunartillögu eins og hún kemur fram. Eins og ég nefndi í upphafi munum við fjögur sem stöndum að þessu áliti örugglega koma upp hér í ræðum og gera nánar grein fyrir því til að mynda hvað okkur finnst um tiltekið verklag í þessu, þ.e. hvort þessi stofnun eigi að vera undir þessu ráðuneyti, þetta verkefni hér eða annars staðar. Það eru alls konar sjónarmið uppi um það. En þetta eru meginlínurnar í því sem við viljum fylgja úr hlaði með minnihlutaáliti okkar.