152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Sigmar Guðmundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég hef margoft heyrt þessa umræðu með menningarmálin og þetta má svo sem yfirfæra á fleiri ráðuneyti. Við höfum tekið eftir því að undanfarin misseri hefur verið kvartað undan því að landbúnaði sé ekki gert nógu hátt undir höfði í þeirri skipan sem verið hefur síðustu ár og svo mætti lengi telja. Svo ég svari bara stuttlega þá get ég alveg tekið undir það sem hv. þingmaður nefnir hér og ætla líka að játa að mér finnst að stjórnvöld á hverjum tíma megi hafa ákveðið svigrúm til að meta það hvernig þau vilja haga málum. Ég held að það sé alltaf þannig að allir hópar, sama hvort það er menningargeirinn eða einhverjar atvinnugreinar eða einhverjir aðrir aðilar, hafi alltaf áhyggjur af því að þeirra málaflokkur fái ekki nægt súrefni inni í Stjórnarráðinu. Ég get alveg tekið undir það að mér finnst ekkert vitlaust við það að skipta menningar- og menntamálaráðuneytinu upp. Það hefur verið kallað eftir því lengi og svo verðum við bara að sjá hvernig til tekst.