152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Sigmar Guðmundsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kannski aðeins til að hnykkja á því sem ég nefndi hér áðan og í samhengi við þessa umræðu þá langar mig að vitna í textann úr greinargerðinni sem fylgir þessari þingsályktunartillögu:

„Nýtt ráðuneyti menningar og viðskipta leiðir saman hina nýrri atvinnuvegi ferðaþjónustu og skapandi greina sem hafa orðið sífellt mikilvægari fyrir íslenskt efnahags- og viðskiptalíf. Ljóst er að ferðaþjónustan og menningargeirinn njóta gagnkvæms ávinnings af velgengni og hagsmunir þeirra að miklu leyti samofnir. Þannig hafa íslenskir menningarviðburðir á borð við tónlistar- og kvikmyndahátíðir verið aðdráttarafl ferðamanna um árabil. Að sama skapi njóta skapandi greinar góðs af stærri markaði sem fylgir fjölgun ferðamanna og aukinni eftirspurn eftir íslenskri list og menningu. Samlegðaráhrif málaflokkanna eru auðsjáanlega mikil og nauðsynlegt að þeim sé búin umgjörð þar sem stefnumótun og stuðningur hins opinbera stuðlar að viðgangi beggja atvinnugreina í senn.“

Svona texta er í sjálfu sér hægt að setja saman um hvað sem er. Þetta er bara einhver rökstuðningur að mínu mati sem fylgir þessari uppstokkun sem við vorum að tala um áðan og á rætur sínar að rekja til þess að Stjórnarráðinu var skipt upp með ákveðnum hætti vegna kosningaúrslitanna. Það liggur auðvitað fyrir að fyrrverandi menntamálaráðherra vildi gjarnan halda menningarmálunum áfram á sinni könnu. Þarna eru viðskiptamálin líka undir. Það má alveg spyrja á móti: Bankarnir og ljóðin, eiga þau mikla samleið? Við getum endalaust tekist á um þessa hluti en ég las þennan texta upp bara til að undirstrika það að öll þau fyrirheit sem er verið að nefna í þessu, og efast ég ekkert um að góður vilji sé að baki, eru rökstudd með einhverjum svona orðaleppum og samtíningi orða sem líta ofsalega fallega út á blaði en segja okkur ekkert meira um það í sjálfu sér hvernig eigi að framkvæma hlutina. Það er eiginlega það sem við erum kannski svolítið að gagnrýna í nefndaráliti okkar.