152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[18:14]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Kærar þakkir fyrir þessa spurningu. Ég fagna öllum þingmönnum sem er umhugað um ríkissjóð og að hið opinbera, báknið, eins og það er oft kallað, sé gagnrýnið á störf sín og skoði í hvað það eyðir peningunum. Ég þakka kærlega fyrir það. En ég ætla samt að leyfa mér að spyrja: Hvað er ábati? Hvað er það að koma út í plús eftir breytingar af þessu tagi? Í andsvari áðan sagði hv. þm. Jakob Frímann Magnússon ágæta dæmisögu af því hvernig skjólstæðingum hans leið í ráðuneyti þar sem margir málaflokkar voru undir, þeim leið eins og þeir týndust jafnvel á köflum. Það er ekki einsdæmi. Hvað þýðir það að bið varðandi skipulag húsnæðis og alls þess sem því tengist styttist fyrir borgara í landinu, fyrir fyrirtækin í landinu? Hvaða ábati er af því? Hvaða ábati er af því til framtíðar að taka nýsköpun föstum tökum, að við höldum áfram að undirbyggja eina stærstu stoð íslensks efnahags? Og ég gæti haldið áfram.

Í mínum huga, frú forseti, er ekki hægt að fullyrða, eins og ég hef heyrt í umræðum í dag, að stór ráðuneyti séu alltaf betri. Ég get svo sem ekki staðið hér og fullyrt hið gagnstæða. En þetta er ekki hægt að fullyrða. Þessi breyting er í takt við pólitískar áherslur ríkisstjórnarinnar til að mæta áskorunum samtímans (Forseti hringir.) og ég held að þetta sé ágætlega ígrundað og vel gert.