152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[18:16]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að fylgjast með umræðunni hérna í dag og líkt og komið hefur fram er þetta gríðarlega stórt mál og mismunandi skoðanir á því sem er bara ósköp eðlilegt. Það er mjög mikilvægt og hollt fyrir okkur að taka umræðuna og skiptast á skoðunum. Við lifum á tímum örra tæknibreytinga sem fela í sér ný tækifæri og áskoranir. Það er því mikilvægt að stjórnkerfið hafi þann sveigjanleika sem þarf til að mæta þeim. Með þessum breytingum á skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands erum við að horfa til framtíðar og þeirra viðfangsefna sem fram undan eru. Stjórnarsáttmálinn er framsækinn að mínu mati og uppfullur af framfaramálum fyrir íslenskt samfélag. Þær breytingar sem hér eru til umræðu eru sérsniðnar m.a. að stjórnarsáttmálanum og munu einfalda framkvæmd margra mikilvægra verkefna sem þar koma fram.

Í því samhengi langar mig sérstaklega að nefna þær áskoranir sem fram undan eru í húsnæðismálum. Að setja alla umgjörð húsnæðismarkaðarins undir einn og sama hatt í nýju innviðaráðuneyti er mikilvæg tilfærsla sem gefur aukna og betri yfirsýn og eykur skilvirkni í þeim málaflokki. Ég bind miklar vonir við að hægt verði að taka stór skref til framfara í húsnæðismálum á kjörtímabilinu um allt land, þá sérstaklega þegar kemur að því að stuðla að hæfilegu framboði lóða í samvinnu við sveitafélögin. Skipulagsmál eru nefnilega nátengd sveitarstjórnarmálum og því er afar ánægjulegt að sjá þessa málaflokka í sama ráðuneytinu. Í nýju innviðaráðuneyti eru sterk samlegðaráhrif er snúa að ýmsum innviðum samfélagsins, svo sem samgöngum, húsnæðismálum, skipulagsmálum, byggðamálum, sveitarstjórnarmálum og mannvirkjamálum. Það að tengja þetta saman í sama ráðuneyti er að mínu mati afar skynsamlegt.

Einnig tel ég það jákvætt skref að sameina málefni barna við mennta- og æskulýðsmál. Það eykur yfirsýn yfir málaflokkinn og mun auðvelda samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Hér er verið að kjarna alla þjónustu við börn á einn stað og gefa málaflokknum aukið vægi í stjórnkerfinu.

Að lokum vil ég taka fram að ég tel gríðarleg tækifæri felast í nýju ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. Það mun leysa úr læðingi orku nýsköpunar með auknu samstarfi atvinnulífsins við háskóla og vísindi og skila sér í fleiri verðmætum störfum og styrkja samkeppnisstöðu þjóðarinnar. Aukið samstarf þessara aðila mun stuðla að öflugu hringrásarhagkerfi.

Þetta eru breytingar til að brjóta niður þessi svokölluðu og margumtöluðu síló, auka samvinnu, samlegðaráhrif og skilvirkni í kerfinu öllu. Þetta eru breytingar til að mæta þeim áskorunum sem fram undan eru og koma okkar metnaðarfulla stjórnarsáttmála í framkvæmd.

Ég tek undir það sem komið hefur fram hér áður varðandi mikilvægi þess að gera stöðumat á því hvernig breytingarnar takast til innan nokkurra mánaða, vega það og meta. Við verðum líka að hafa í huga að það er ekkert meitlað í stein en við verðum að vera reiðubúin til að meta stöðuna og endurskoða ef þörf er á. Ég hef því fulla trú á því að þessar breytingar muni skila tilætluðum árangri. Ég hef fulla trú á því að þessar breytingar muni skila tilætluðum árangri.