152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[18:21]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Evu Sjöfn Helgadóttur fyrir andsvarið. Ég lít svo á að húsnæðismál, hvort sem er fatlaðra eða annarra, eigi að vera á einum stað. Ég tel að það sé mikilvægt. Það hafa komið fram margar tillögur um hvernig hægt sé að bæta þetta og ég tel til mikilla bóta að hafa þetta undir sama ráðuneyti.

Varðandi barnamálin hefði verið einkennilegt, af því að hv. þingmaður tók þau mál fram í tengslum við fötluð börn, að taka þau sérstaklega út fyrir þegar við erum að kjarna alla þjónustu við börn á sama stað. Ég tel mjög mikilvægt að öll þjónusta sem tengist börnum sé á sama stað. Ég hef fulla trú á því að þetta muni ganga eftir, að þetta muni skila okkur árangri og ef ekki að við séum þá reiðubúin til að endurskoða þessa hluti ef þörf er á.