152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[18:24]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni Evu Sjöfn Helgadóttur fyrir seinna andsvarið. Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt mál og tilfinningamál líka og það þarf að vanda virkilega vel til verka. Ég skil alveg þessar hugleiðingar hv. þingmanns. Það þarf að vanda vel til verka. Hún kom að því hvort það væri einhver sérstakur mælikvarði til að mæla árangurinn. Ég hef í raun ekki þekkingu til að geta svarað því hér og nú. Það er þannig. Hins vegar höfum við ýmsar leiðir og það eru biðlistar t.d. og það er víst þjónustugrein sem hægt er að fara í til að meta stöðuna og meta hvernig þetta gengur. Ég er sannfærð um það, líkt og kom fram í máli mínu áðan, að betra sé að setja alla þjónustu við öll börn á sama stað. Líkt og kom fram í máli hv. þingmanns um Ráðgjafar- og greiningarstöðina þá er það mjög góð umsögn sem vert er að skoða og meta. En eins og staðan er í dag tel ég að þetta sé mikilvægt skref og rétt framfaraskref að stíga.