152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[18:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Eitt af vandamálunum við að setja allt á sömu hendi, þó að það auki kannski skilvirkni, er að það kemur oft niður á gæðaeftirliti því að fræðin eru þannig að gæðaeftirlit er til hliðar við framkvæmdir og ákvarðanir. Ef gæðaeftirlit er í höndum þess sem tekur ákvarðanir um skipulag og framkvæmdir, og fer í framkvæmdir, er að sjálfsögðu um sjálfsmat að ræða. Sjálfsmat er gott og blessað út af fyrir sig en ef það á að vera raunverulegt gæðaeftirlit þarf líka ytra eftirlit og óháð með ýmsum ákvörðunum. Umhverfismatið er að vissu leyti þess háttar fyrirkomulag, að meta áhrif af vissum framkvæmdakostum. Þá eiga ekki þeir sem munu ákveða hvaða framkvæmdakostir verða fyrir valinu að stjórna því líka hvernig matið á áhrifum framkvæmdakostanna verður, af því að þeir eru augljóslega hlutdrægir eða geta verið hlutdrægir. Það eru áhyggjurnar sem ég hef varðandi það að hrúga öllu á sama stað á sömu hendi. Jú, ég skil skilvirkni, sem sagt löngunina, en kostnaðurinn við hlutdræga ákvarðanatöku leiðir óhjákvæmilega af sér að lokum að teknar verða ákvarðanir sem eru í heildina skaðlegar, bara af því að það var geðþóttaákvörðun þeirra sem ákváðu að taka hana, þeim fannst þetta vera miklu betra en fagleg vinnubrögð hefðu kannski sagt til um. Ég bendi á staðsetningu spítalans t.d., hryllileg staðsetning þegar allt kemur til alls, varðandi aðgengi frá höfuðborgarsvæðinu miðað við aðra staði. Það er ýmislegt sem má gera betur. Við byrjum á að henda út fúskinu.