152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[18:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jakob Frímann Magnússon flýgur sjaldnast lágt í orðræðunni, en ég hef ekki oft heyrt hv. þingmanninn ná viðlíka hæðum eins og hér og verð fyrir vikið að viðurkenna að ég var ekki alveg undir það búinn að meta þetta tækifæri sem hv. þingmaður kynnir hér. Þó finnst mér svona fljótt á litið að það sé tiltölulega ólíklegt að þessir 12 hæstv. ráðherrar verði af nokkrum mönnum, hvort sem það eru einhverjir í suðurríkjum Bandaríkjanna eða annars staðar, taldir jafnast á við postula, enda eru þessir ráðherrar, eins og ég rakti að nokkru leyti í ræðu minni áðan, ekki boðberar mikilla tíðinda. Þeir eru ekki boðberar mikillar sýnar, þeir eru ekki leiðsögumenn, þeir eru ekki að vísa okkur veginn. Þeir eru einfaldlega að vinna samkvæmt því sem fyrir þá er lagt af hálfu stjórnkerfis sem er ekkert endilega alltaf leitt af einhverri guðlegri forsjá. Og fyrir vikið, þó að ég muni velta fyrir mér þessum möguleika, vil ég ítreka að mér þykir það ólíklegt að þessir 12 ráðherrar geti talist einhvers konar nýir postular.