152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[18:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þarna er ég sammála hv. þingmanni. Ég held að þessi ríkisstjórn, starf hennar og hvernig til hennar var stofnað, gæti verið efni í ágætisgamanmynd að hætti Monty Python til að mynda og ég er eiginlega bara strax byrjaður að velta fyrir mér einhverju í handritið. Við getum e.t.v. hjálpast að, ég og hv. þingmaður, að reyna að setja slíkt saman og hugsanlega haft samband við Ríkisútvarpið og athuga hvort við erum í náðinni þar og einhverjir tilbúnir til að framleiða slíkt með okkur. En af því að hv. þingmaður talaði um erlenda orðið „minister“ þá eiga þessir ministerar, sem á íslensku eru kallaðir ráðherrar, að vera þjónar. Það er hlutverk þeirra að þjónusta almenning. Þar klikkar kannski þessi ríkisstjórn. Hún hefur að vísu gert sér grein fyrir þjónustuhlutverki sínu en telur að það þjónustuhlutverk sé fyrst og fremst við eigin flokka og enn frekar við stjórnkerfið, við valdið þar sem þessir ráðherrar koma inn í hlutverk leikara. Handritið er skrifað annars staðar, en ráðherrarnir mæta til að flytja línurnar, koma hér með útprentuð handrit úr ráðuneytunum og lesa þau upp eða fara í viðtöl og segja það sem þeir eiga að segja. Þeir eru leikarar að flytja handrit annarra. En ég ætla að reyna að fylgja þessari hugmynd hv. þingmanns eftir og skoða það hvort við getum í sameiningu sett saman handrit að skemmtilegri gamanmynd um þessa ríkisstjórn.