152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[19:18]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er einmitt málið. Textinn sem við erum að fjalla um í dag er ekki greinargerðin. Greinargerðin í þingsályktunartillögunni er bara til útskýringar. Ef þú lest textann í þingsályktunartillögunni gefur hann enga hugmynd um málið. Ef þú lest bara texta þingsályktunartillögunnar, ekki greinargerðina, myndir þú ekkert vita hvað væri í gangi. Jú, það er breyting á einhverjum nöfnum. Tillagan felur í sér að í stað atvinnuvegaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis o.s.frv. komi önnur ráðuneyti, þetta er bara breyting á nöfnum. Það er vegna þess að breytingin var gerð í nóvember, hún var gerð 28. nóvember. Þar eru málefnin færð undir forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Það er þar sem verið er að skipta þessu upp, þar er hin efnislega breyting, málefnin sem heyra undir ráðherrana. Svo kemur líka mál um skiptingu starfa ráðherra og þetta er hvort tveggja í nóvember. Svo kemur forsætisráðherra með þessa tillögu í desember, tillöguna sem hér er til umfjöllunar, og það á að upplýsa þingið um breytingar á Stjórnarráði Íslands. Það er bara ekki gert. Ef þú lest þennan texta, þessa einu málsgrein, þá segir hann ekki neitt. Og svo þegar þú ferð að lesa greinargerðina þá eru ákveðnar skýringar þar, en greinargerðin er ekkert hluti af texta ályktunarinnar, ekki á nokkurn hátt, hún er bara skýringargagn. Þar getur þú lesið um það að skógrækt og landgræðsla séu orðin hluti af matvælaráðuneyti.

Það er kristaltært að hugsunin á bak við 2. gr. og lög um Stjórnarráð Íslands var sú að Alþingi skyldi fjalla um þessa breytingu, hún var sú að upplýsa Alþingi efnislega um breytingarnar. Það er þannig sem þetta er hugsað og það er með ólíkindum að vera að grauta með þetta í þremur forsetaúrskurðum.

15. gr. stjórnarskrárinnar er algjörlega skýr, með leyfi forseta:

„Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.“

Í 16. gr. segir:

„Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.“

Hann er þess vegna kallaður forsætisráðherra. (Forseti hringir.) Það getur verið hvaða ráðherra sem er ef við förum að fjalla nánar um það, en það verður að lesa þessa þrjá úrskurði í heild ef fá á botn í þetta.