152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[19:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Í áliti meiri hluta, þegar fjallað er um málefni mennta- og barnamálaráðuneytis, er það Ráðgjafar- og greiningarstöðin sem flyst undir það ráðuneyti; þ.e. meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að rétt sé að stofnunin flytjist þangað. En þetta er engin breytingartillaga, þetta eru vinsamleg tilmæli eða eitthvað svoleiðis. Ætlar ríkisstjórnin samt að flytja Rannsóknar- og greiningarstöð þangað? Og hvað með framhaldsskólann, sem er fjallað um þarna? Það koma líka fram áhyggjur af því að málefnum framhaldsskólans séu ekki gerð nægilega góð skil í greinargerð þingsályktunartillögunnar. Þegar maður er að reyna að grafa sig í gegnum af hverju verið er að gera eitt en ekki annað þá eru útskýringarnar alltaf yfirborðskenndar. Ein helstu rökin sem maður sér fyrir því að nauðsynlegt sé að fara í þessar breytingar í þingsályktunartillögunni eru þau að fella þurfi niður ósýnilega múra stofnanamenningar, að þeir geri ýmislegt óskilvirkt og alls konar svoleiðis. En í meirihlutaáliti segir að almennt ráði það eitt ekki úrslitum um hvort framkvæmd stjórnarmála sé árangursrík og skilvirk að þau heyri undir eitt og sama ráðuneytið. Þvert á móti kunni hinir ósýnilegu múrar stofnanamenningar að þrífast milli skrifstofa innan ráðuneytis, rétt eins og á milli ráðuneyta, og þá skipti meira máli að innan Stjórnarráðsins fari fram virk samvinna og samstarf. Af hverju þarf þá að færa verkefni á milli ráðuneyta ef það þarf hvort eð er bara virka samvinnu og samstarf. Það er ekki útskýrt af hverju verið er að færa eina einingu til annars ráðuneytis og það er heldur ekki útskýrt af hverju virk samvinna leysir það ekki. Og hvort væri ódýrara? Ég hef ekki hugmynd um það, það er ekki reynt að útskýra það, það er stóri gallinn við þetta allt.