152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[19:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér í greinargerð með tillögunni segir að markmiðið sé að tryggja að Stjórnarráðið sé sem best í stakk búið til að takast á við þau krefjandi samfélagsverkefni sem fram undan eru í samræmi við þær áherslur sem lagðar eru í sáttmála ríkisstjórnarinnar á komandi tímabili. Það sem ég skil ekki í málflutningi hv. þingmanns er að ef hann er sammála því að hæstv. forsætisráðherra geti skipað verkum í ráðuneytum í ríkisstjórn Íslands, hvernig það á þá að vera eitthvað annað en undir pólitískri forystu komið að halda utan um verkstjórnina á því að þannig sé verkefnið. Því að það er það sem verið er að gera hérna, lýsa því hvernig verkstjórn forsætisráðherra með verkaskiptingunni er.

En gott og vel. Ég fagna því samt og hv. þingmaður telur að forsætisráðherra eigi að hafa þetta hlutverk. Mig langar að nota síðustu sekúndurnar til að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki einmitt nauðsynlegt að koma með breytingar sem eru í takt við samtímann hverju sinni. Mig langar að benda á það að á sínum tíma var einmitt talið mjög varhugavert eða ekki þjóna tilgangi að koma á fót nýju ráðuneyti, sem var á þeim tíma umhverfisráðuneytið. Ég held að sagan hafi sýnt okkur að það hafi verið gríðarlega mikilvægt. (Forseti hringir.) Þess vegna held ég einmitt að það skipti svo miklu máli að forsætisráðherra á hverjum tíma hafi (Forseti hringir.) þetta tækifæri og þetta hlutverk að einmitt leggja áherslurnar sem eru pólitískt markandi.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á takmarkaðan ræðutíma í andsvörum og svörum.)