152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[19:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju þessi skilaboð komast ekki alla leið að því er virðist. Það er eitt að segja að þetta séu markmiðin, ég trúi því að fólk sé allt af vilja gert til að ná þeim. En það er eitt að segja að þessar breytingar muni ná þeim markmiðum og annað að útskýra hvernig þær muni ná þeim. Ég er að segja: Það vantar útskýringu á því. Það er krafa sem þingið á að gera á ríkisstjórn af því að við erum lýðveldi með þingbundna stjórn. Við tökum hér ákvarðanir um fjárveitingar af því að við metum notkun þeirra fjárheimilda jákvæða fyrir samfélagið í heild sinni. Ef það er ekki útskýrt af hverju fjárheimildir í eitt verkefni umfram annað eru jákvæðar fyrir samfélagið, af hverju ættum við þá að leyfa þær fjárheimildir? Hér er raun verið að biðja um, og meira að segja búið að samþykkja, sem er stórkostlegt, auknar fjárheimildir í fjölgun ráðuneyta, án þess að við höfum í raun hugmynd um hvað við fáum fyrir þær auknu fjárheimildir. Það er bara um að ræða pólitíska ágiskun um að það muni skila einhverjum árangri sem á að leggja fram í einhverri stöðumatsskýrslu, sem er ekki grundvölluð með neinu haldbæru. Það er bara sagt: Já, við vissum að þetta myndi gerast og okkur tókst æðislega að gera það. Eftiráskýringar sem sagt. Ég vil fá útskýringar á því af hverju þetta er góð lausn á því vandamáli sem ósýnilegir veggir stjórnsýslunnar eru.