152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[19:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í lögum um ríkisborgararétt segir að þegar Alþingi veitir ríkisborgararétt með lögum skuli Útlendingastofnun gefa umsögn um umsókn viðkomandi. Þetta er eitt skýrasta lagaákvæði sem við eigum. Það er hægt að lesa og sjá hvað stofnunin á að gera. Þess vegna sætir nokkurri furðu að Útlendingastofnun hafi í dag brugðist við skýrum ábendingum um að hún hafi ekki sinnt hlutverki sínu gagnvart Alþingi með því að skila inn umsóknunum en ekki þeim umsögnum sem hún á að vinna um hverja umsókn. (BLG: Umsögnum um umsókn …) Virðulegur forseti þekkir jafn vel og sá sem hér stendur hvernig stofnunin reyndi ítrekað að beygja ferli Alþingis undir vilja stofnunarinnar á síðasta kjörtímabili. Ég vona að hún fari að láta af þeim leiða ósið og fari að sætta sig við það að fara að lögum. Ég lýsi því yfir að ég er reiðubúinn til að styðja forseta í öllum tilraunum hans til að fá stofnunina til að sinna starfi sínu gagnvart löggjafanum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)