152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[20:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands er að sjálfsögðu ekki verið að breyta núgildandi lögum eða leggja niður stofnanir. Verið er að færa til málaflokka og koma stjórnskipuninni fyrir í ráðuneytum með þeim hætti sem ríkisstjórn, undir verkstjórn forsætisráðherra hverju sinni, telur heppilegast til að koma málum sínum í framkvæmd. Mér finnst mikilvægt að við höldum athyglinni á því þegar við ræðum þessi mál þó svo að vitaskuld séu alls konar lög sem ég held að við flest myndum vilja breyta.

Ég tek hjartanlega undir með hv. þingmanni þegar kemur að því að Ísland eigi að gera vel þegar kemur að móttöku flóttamanna. Það skiptir máli að fólk geti komið hingað og sest hér að þegar það flýr hörmulegar aðstæður. Ég tel reyndar að með þeirri breytingu sem hér er verið að gera, með því að færa þjónustuna til félagsmálaráðuneytisins, séum við einmitt að bæta umgjörðina í kringum þetta mikilvæga málefni.

En það sem mér finnst ekki hafa komið fram hjá hv. þingmanni er: Gerir hann athugasemd við að það sé í verkstjórnarvaldi forsætisráðherra að skipa ráðuneytunum (Forseti hringir.) eftir því sem ríkisstjórn telur henta hverju sinni til að ná fram sínum málum?