152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[20:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, við erum sammála um hvar pólitíska valdið liggur, við erum sammála um að það eigi að vera eitthvert ferli. Ég myndi segja að þessi tillaga til þingsályktunar um breytt nöfn ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands — hún ætti alla vega að heita það, vegna þess að það er það eina sem kemur fram í henni. Ég mæli með því að næst þegar breyta þarf skipan ráðuneyta, hvort sem það er eftir þrjú ár og níu mánuði eða hvort það er eitthvað styttra í það, þá setjum við inn í sjálfa þingsályktunartillöguna þau hlutverk sem hvert og eitt ráðuneyti á að hafa þannig að raunverulega sé hægt að ræða og koma með tillögur um breytingar sem forsætisráðherra tekur þá kannski ákvarðanir um. En eins og þetta er í dag er þetta eitthvað sem við getum ekki breytt, annað en bara nöfnin.

Mig langar líka að taka undir með hv. þingmanni að það er svo sannarlega góð breyting að verið sé að færa málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd frá dómsmálaráðuneytinu. Ég vonast til þess að sá vilji sem hv. þingmaður hefur sýnt í dag, og segir að sé vilji Vinstri grænna, sé það sterkur að sá flokkur a.m.k. og aðrir flokkar sem eru tilbúnir til þess að vinna virkilega að þessum málum saman — að við setjumst niður og við lögum þetta í sameiningu, þvert á alla flokka.