152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[20:45]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Virðulegur forseti. Þroskahjálp nefnir í umsögn sinni um umrædda þingsályktunartillögu, með leyfi forseta:

„Ráðgjafar- og greiningarstöð gegnir augljóslega og óumdeilanlega algjöru lykilhlutverki með tilliti til fatlaðra barna, samanber ákvæði laga um stofnunina, nr. 83/2003. Landssamtökin Þroskahjálp telja því engin haldbær rök fram komin sem styðja fyrirætlanir samkvæmt þingsályktunartillögunni um að flytja Ráðgjafar- og greiningarstöð frá félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytinu til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Samtökin telja þá breytingu alls ekki vera í þágu fatlaðra barna og alls ekki til þess fallna að tryggja betur samfellu í þjónustu við fötluð börn og farsæld þeirra eins og ríkisstjórnin leggur áherslu á að skuli gert. Þá ítreka samtökin enn að bráðnauðsynlegt er að Ráðgjafar- og greiningarstöð sinni þjónustu við fullorðið fatlað fólk í mun meira mæli en verið hefur. Með vísan til framangreinds skora Landssamtökin Þroskahjálp því á ríkisstjórnina, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og Alþingi að endurskoða fyrirætlun um flutning Ráðgjafar- og greiningarstöðvar frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.“

Það er greinilegt af þessu að samtökin telja þessa breytingu ekki vera gerða í þágu fatlaðra barna og þar er ég þeim algjörlega sammála. Þessi breyting horfir ekki á samfellu í þjónustu fyrir þann hóp þar sem þetta er einn viðkvæmasti hópur samfélagsins.

Að málefni fatlaðra barna séu ekki undir sama ráðuneyti og málefni fatlaðs fullorðins fólks er mikið áhyggjuefni fyrir þá sem standa nærri þessum málaflokki. Það er bráðnauðsynlegt að Ráðgjafar- og greiningarstöð sinni fullorðnum fötluðum einstaklingum í mun meira mæli en gert er og það er mikill skortur á úrræðum fyrir þennan hóp eins og fyrir aðra viðkvæma hópa í landinu. Einnig er mikilvægt að huga að samfellu í þjónustu við fatlaða einstaklinga. Með því að skipta málaflokki fatlaðra í mismunandi ráðuneyti er ekki verið að huga að farsæld eða samfellu í þjónustunni.

Þingsályktunartillagan fjallar einnig um húsnæðismál. Þar sem húsnæðismál fatlaðs fólks var einnig nefnt í umsögn Þroskahjálpar þá er ljóst að þau hafa einnig miklar áhyggjur af því að félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið verði ekki lengur með umsjón með húsnæði fatlaðs fólks heldur fer það í innviðaráðuneyti. Þarna er mikilvægt að það sé rökstutt hvers vegna þessar breytingar eru til góða og hver markmiðin eru og hvernig þau eru mæld. Það er ekki gert. Það er mikilvægt að fagleg vinnubrögð séu viðhöfð hjá stjórnvöldum og að hægt sé að rökstyðja með góðu móti hvers vegna þessar breytingar eru til góða.

Rætt er um að brjóta ósýnilega múra. En hvar er verið að setja upp ósýnilega múra? Gæti mögulega verið að verið sé að setja upp ósýnilega múra í málefnum fatlaðra? Ég veit það ekki. Það er nokkuð sem við þurfum að fá svör við. Þetta er hópurinn sem við þurfum að standa hvað best vörð um í okkar samfélagi og af umsögninni að dæma er ekki tekið mikið mið af þessu og ekkert einu sinni verið að velta þessum möguleikum fyrir sér. Hvaða áhrif hefur það á starfsfólkið þegar það veit ekki hvar það á að vera? Það er einmitt eitthvað sem maður hefur lært í stjórnendanámi og þess háttar, að samráð skiptir mjög miklu máli upp á starfsanda o.fl. Þess vegna hugsar maður: Bíddu, hvers vegna er ekki talað við sérfræðinga innan ráðuneytanna? Hvers vegna er þetta ekki gert í samráði, þar sem annars konar stjórnendahættir eru ekki lengur jafn farsælir, ef ég get orðað það sem svo? En það þarf að hafa rök fyrir breytingum, sérstaklega stjórnvöld landsins. Ef þau ætla að breyta og bæta við heilu ráðuneyti og breyta svona miklu — og þetta kostar mikla peninga og mikið fjármagn — þá þurfa rökin að vera mjög haldbær og þau þurfa að vera skiljanleg sem flestum og að einhverju leyti líka samþykkt.

Hver eru markmiðin með þessari skiptingu ráðuneyta og hver eru undirmarkmiðin? Hvernig eru þau mæld? Er til of mikils ætlast að verið sé að spá í markmið og mæla þau? Að gerðar séu einhvers konar mælingar á því hvernig þetta er núna og hverju við viljum breyta og hvernig við ætlum að ná því fram og hvernig á að mæla það? Ef við þurfum að fara til baka eða breyta einhverju aftur, hvernig vitum við þá hvernig þetta var ef við erum ekki með mælingar? Þetta er nokkuð sem maður lærir í námi: Svona sér maður árangur. Maður tekur grunnlínu af því sem er að gerast og síðan vinnur maður út frá því með markmiðin og athugar hvort þetta virkar eða ekki. Þetta eru alla vega spurningar sem vakna þegar maður skoðar umrædda þingsályktunartillögu.

En hvernig er með ráðgjöf sérfræðinga og annað? Það er kannski vert að skoða hvernig væri best að gera það og að nýta sérfræðinga innan ráðuneyta. Það er auðvitað þannig að maður er ekki sérfræðingur í öllum málaflokkum eða á öllum sviðum, en við höfum mjög færa sérfræðinga sem gætu þá, í samráði við stjórnvöld, hjálpað þeim að finna réttu leiðirnar og réttu lausnirnar, hvar þörfin er mest og hvernig fjármagninu er best varið og hvernig væri best að setja þetta upp.

En hvernig eigum við að treysta því að þessum ráðuneytum fylgi meira fjármagn, ef við horfum t.d. til geðheilbrigðismála? Nú eru geðheilbrigðismál innan heilbrigðisráðuneytisins. Hvernig eigum við að trúa því að með þessari fjölgun ráðuneyta fái geðheilbrigðismál t.d. það fjármagn sem þau þurfa og hvernig er hægt að taka á því neyðarástandi sem ríkir í geðheilbrigðismálum á Íslandi? Hvernig er verið að nota eitthvað af þessu fjármagni til að beita sér t.d. gegn þeim sjálfsvígsfaraldri sem við stöndum frammi fyrir, þar sem 47 einstaklingar tóku eigið líf árið 2020 og stærstur hluti þeirra var ungmenni, ungt fólk. Hver er vilji stjórnvalda til að takast á við það? Það væri t.d. hægt að fullfjármagna niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu á tímum heimsfaraldurs. Hvernig er forgangsröðun stjórnvalda háttað? Ég er mjög forvitin að heyra það. Ég væri rosalega til í að vita hvernig forgangsröðunin er þegar við stöndum frammi fyrir neyðarástandi í geðheilbrigðismálum þar sem unga fólkinu okkar líður sífellt verr í skólanum og í skólakerfinu, það er fullt af börnum sem mætir ekki í skólann. Þess vegna spyr ég mig: Er þetta forgangsröðin? Er forgangsröðunin að niðurgreiða ekki sálfræðiþjónustu? Er forgangsröðunin að stytta ekki biðlista? Er forgangsröðunin þessi? Þetta er bara eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur og reyna að skilja, vegna þess að ég skil það ekki.

Hvernig væri mögulega hægt að beita sér t.d. fyrir því að setja orkuna og allt þetta fjármagn í að reyna að fækka dauðsföllum vegna sjálfsvíga? Eða bara eitthvað annað í geðheilbrigðismálum eins og t.d. að byggja nýjan geðspítala? Allir þeir sem hafa komið inn á Kleppsspítala eða inn á geðdeildir Landspítalans vita að þetta er að grotna niður og það er ekki hægt að bjóða fólki upp á þetta, fólki með geðsjúkdóma, að vera inni á spítölum. Og fyrir utan það á að fækka innlagnarplássum vegna þess að það fæst ekki starfsfólk, það fást ekki geðhjúkrunarfræðingar, það fást ekki geðlæknar.

Ef við ræðum meira um geðheilbrigðismál í þessu samhengi þá er það bara þannig að geðheilsuteymin eru líka mörg hver í algjöru lamasessi, fyrir utan það náttúrlega að við styttum ekki biðlista barna eftir úrræðum þar sem sálfræðiþjónusta er ekki niðurgreidd og allt það. Þannig að maður spyr sig: Hvernig er forgangsraðað? Það þarf kannski aðeins að hugsa það upp á nýtt. Sem starfsmaður í opinberri stofnun get ég fullyrt það að úrræði fyrir börn eru af mjög skornum skammti. Börn fá sálfræðitíma í afmælisgjafir, kannski tvo frá foreldrum sínum eða eitthvað svoleiðis, vegna þess að það kostar 20.000 að meðaltali að fara til sálfræðings. En þar sem ekki hefur verið staðið við það að niðurgreiða sálfræðiþjónustu þá er ekkert sem við getum gert í því. Geðheilsa virðist vera einhvers konar munaður, það er munaður að vera með góða geðheilsu en líkamleg heilsa og allt sem tengist Covid-faraldrinum eru sjálfsögð mannréttindi. Geðheilbrigði ætti líka að vera sjálfsögð mannréttindi.

Ég óttast að breytingarnar sem áætlaðar eru í þessari þingsályktunartillögu muni leiða það af sér að þetta muni bara minnka enn þá meira, það verði enn minna fjármagn úr að spila, að það verði enn þá meira neyðarástand í geðheilbrigðismálum. Ég byggi það á því að það eru fleiri ráðuneyti, meira fjármagn sem fer í það að sinna annars konar málefnum sem skipta auðvitað máli. En 47 ungir einstaklingar falla ekki fyrir eigin hendi nema eitthvað sé að. Það er eitthvað að í þeirri þjónustu sem við veitum fólki, eða réttara sagt þjónustu sem við veitum fólki ekki. Það er eitthvað að þegar börn taka eigið líf. Þá erum við á rangri leið. Stundum þurfum við kannski að fara aðeins aftur á bak og segja: Heyrðu, hvert erum við komin og hvert ætlum við að fara? Þar eru sérfræðingar á alls konar sviðum, auðvitað þeir sem einstaklingar vilja vera í samráði við.

En þetta er bara eitthvað sem mismunandi skoðanir eru um. En þegar maður veit að það er neyðarástand í þessum málaflokki þá er mjög erfitt að horfa upp á að verið sé að búa til ný ráðuneyti og það kostar væntanlega fullt af peningum. Og þegar maður veit um allar þær fjölskyldur og öll þau börn og allt sem tengist geðheilsu, sem tengist úrræðum fyrir börn — skólaforðun er risastórt vandamál sem er verið að reyna að takast á við en við eigum bara ekki nógu mikið af úrræðum. Við eigum ekki nógu mikið fjármagn til að grípa þau börn sem ekki mæta í skóla vegna kvíða, vegna tölvufíknar, vegna skólaforðunarvanda.

En það að fá ekki sérfræðinga með sér og að vera ekki með markmið sem eru mælanleg — auðvitað er ekki hægt að mæla allt og ég geri mér grein fyrir því. En það er hægt að mæla fullt. Það er hægt að vera með markmið sem er hægt að mæla og ef það eru markmið á bak við sem hægt er að rökstyðja, þar sem er hægt að segja: Þetta er betra út af þessu — er líklegra að fólk, fatlaðir einstaklingar, fái fyrr búsetuúrræði ef málefnið er undir innviðaráðuneytinu? Hvernig verður það gert? Er hægt að rökstyðja að svo verði? Er hægt að mæla það? Mun það verða mælt hver meðalbiðtími einstaklings er? Þetta er eitthvað sem verður væntanlega bara að koma í ljós. En ég vil hvetja stjórnvöld til þess að mæla þetta og skoða þetta vegna þess að það er ekki bara í þágu þess að rökstyðja að það sé betra að hafa fleiri ráðuneyti, það er líka í þágu þess að við trúum og treystum á það sem er verið að gera vegna þess að við sjáum að það eru gögn sem sýna okkur það og við trúum því. En til þess þarf að taka mið af því hvernig þetta er núna og hvernig þetta á að verða.

Það er ekki hægt, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagði hérna áðan, að koma með þetta eftir á, það rýrir trú og traust. Það þarf að koma fyrr. Það þarf að leggja það upp: Svona er þetta núna. Þetta er það sem við ætlum að gera. Við ætlum að mæla þetta með þessum hætti vegna þess að við vitum að það er vísindalega nálgunin og hún virkar. Það er ástæða fyrir því að við trúum á vísindin, það eru ástæða fyrir því að við trúum á þríeykið. Það er ástæða fyrir því, vegna þess að við vitum að vísindi og vísindalegar aðferðir og gagnreyndar aðferðir til að gera svona hluti virka. Það er sannleikur. Þannig að það þarf að horfa á það bæði til að rökstyðja breytingu á ráðuneytunum en einnig til þess að við trúum á þessar breytingar og á að þetta sé gert til að bæta hag fólksins í landinu.

En eins og ég segi er það mikið áhyggjuefni hjá mér að geðheilbrigðismál fá sífellt minni athygli og að við eigum eftir að standa frammi fyrir enn meiri og vaxandi vanda sem verður svo mikill að það er óhugsandi. Það er neyðarástand í geðheilbrigðismálum akkúrat núna þannig að ég veit ekki alveg hvernig þetta verður ef þetta versnar. En ég vona bara og trúi því að það séu mögulega einhverjar lausnir í sjónmáli og það sé einhver vilji til að fækka ekki innlögnum inn á spítala, ekki vera með opið á bráðamóttöku á geðdeild í styttri tíma en það er opið í Kringlunni. Það er bara niðurlægjandi og það setur fólk í annan flokk en önnur heilbrigðisvandamál gera.

En þetta er stærstu áhyggjurnar, að við séum að missa sjónar á markmiðum og hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum og hvernig á að forgangsraða í það sem er mikilvægt, er aðkallandi, eins og sóttvarnaaðgerðir, aðkallandi og mikilvægt. Sjálfsvígsfaraldur sem við stöndum frammi fyrir, það er mikilvægt og aðkallandi að bregðast við en hann er þögull. Þetta er þögull faraldur sem heyrist ekkert í en er þarna og stækkar ef við hunsum hann. Það er því mjög mikilvægt að við trúum því að stjórnvöld muni forgangsraða og muni ekki missa sjónar á því hvað skiptir máli þrátt fyrir fleiri ráðuneyti, meiri kostnað í tengslum við þau og annað því um líkt.