152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[21:20]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tók eftir því í ræðu hans að hann hjó eftir því að í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Eins og sjá má eru þessar breytingar á skipan ráðuneyta síðast en ekki síst til þess fallnar að fella ósýnilega múra stofnanamenningar og stuðla að samvinnu, samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins.“

Ég held ég hafi aldrei nokkurn tímann lesið annað eins samansafn af frösum á ævinni og þegar ég las greinargerðina. Það eru nýjar áskoranir, takast á við nýja tíma, stjórnkerfisumbætur, vera í stakk búin til að takast á við krefjandi samfélagsverkefni, skapa skilyrði fyrir nýja hugsun, skapandi lausnir, í takt við þróun umræðu sem kallar á jafnvægi milli nýtingar og verndar og svo stofnanamúrar. Nú hef ég unnið innan fyrirtækis þar sem deildarmúrar voru teknir niður og það var gert með svokölluðu „free seating“, frjálsu sætavali, allir settir inn í sal og það myndi leiða til þess að fólk væri að vinna saman, tala saman og skiptast á skoðunum óformlega. Ég sé nákvæmlega ekkert í þessari þingsályktunartillögu og ég tala nú ekki um í forsetaúrskurðunum sem leiðir til þess að fella niður hina ósýnilegu stofnanamúra eða að það sé verið að takast á við nýja tíma og Stjórnarráðið sé sem best í stakk búið að takast á við krefjandi samfélagsverkefni. Sér hv. þingmaður eitthvað í þessu plaggi, tillögu til þingsályktunar á þskj. 169, þar sem er verið að takast á við þessa nýju tíma, annað en að breyta um nöfn? Það er meira að segja verið að breyta nafni úr vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Það er breyting frá því í haust, það eru alveg nýir tímar frá því í nóvember. Er eitthvað hægt að sjá hérna sem sýnir (Forseti hringir.) að við erum að ganga inn í nýja tíma og hinir ósýnilegu múrar stofnanamenningar séu að hverfa? (Forseti hringir.) Og veit hann hvað þetta þýðir, múrar stofnanamenningar?