152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[21:24]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég get ekki annað en verið sammála því sem hann sagði. Það er margt fleira í þessu en fyrir mér er þetta sáraeinfalt. Það er verið að fjölga ráðherrum í ríkisstjórn Íslands um einn svo að Framsóknarflokkurinn fái aukaráðherra í samræmi við þingstyrk sinn, hann vann stórsigur og það allt. En það að gera allt þetta í kringum þetta, allt þetta orðagjálfur og það allt, mér finnst það alger óþarfi. Það er bara verið að flækja málið. Það væri miklu einfaldara að fjölga ráðuneytum bara um eitt og sleppa því að vera að tala um nýja tíma og nýjar áskoranir o.fl. Ég tek dæmi hérna: „Breytt nálgun við samþættingu málaflokka í ráðuneytum hefur jafnframt það að markmiði að skapa skilyrði fyrir nýja hugsun og skapandi lausnir.“ Svo er talað um að nöfnum sé breytt: „Til að mynda verður mennta- og menningarmálaráðuneytið þannig mennta- og barnamálaráðuneytið til samræmis við aukna áherslu á málefni barna …“. En þetta er líka íþróttamálaráðuneyti, það væri hægt að taka það fram. Af hverju ekki íþróttamálaráðuneyti? Það er hægt að telja upp allar skrifstofurnar liggur við. Ég tel að nafnabreytingarnar skapi rugling hjá þjóðinni, almenningi. Það þarf að vera ákveðin festa í nöfnum. Við erum með dómsmálaráðuneytið, við vitum hvað það er. Núna er komið háskóla-, nýsköpunar- og iðnaðarráðuneyti. Ég tel að þessar nafnabreytingar séu til þess fallnar að skapa rugling hjá almenningi. Ég get tekið dæmi um matvælaráðuneytið. Það er með landgræðslu, skóga og skógrækt. Það veit það enginn í samfélaginu að það sé þarna undir nema kannski við á hinu háa Alþingi.

Mig langar að spyrja hv. þingmenn hver skoðun hans er á þessum nafnabreytingum, hvort þær séu ekki að hluta til a.m.k., ef ekki öllu, til þess fallnar að valda ruglingi hjá almenningi og í samfélaginu.