152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

7. mál
[16:42]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, vilji er allt sem þarf. Það eina við að bjóða upp á nýjar leiðir varðandi skatt eða ekki skatt eða hvenær lífeyristekjur eru skattlagðar er að það tekur ansi mörg ár þangað til hinn almenni borgari fer að njóta góðs af því. Eins og þú segir, ríkissjóður fær meiri pening inn á hverju ári en það tekur svolítið lengri tíma fyrir þá sem setja inn peninginn þar til það fer að skila sér almennilega til þeirra. En ég er svo sannarlega sammála því að það eigi að vera valkostir þegar kemur að þessu máli. Ég get sagt það við hv. þingmann að ég mun berjast fyrir því að útrýma fátækt hér á landi, þar mun ég ávallt standa með ykkur og öllum öðrum sem vilja útrýma henni. Það hvernig við gerum það þurfum við að ræða saman. Það er nefnilega eitt sem við hv. þingmenn þurfum að fara að læra að gera meira af og það er að tala saman, ekki tala bara ofan í hvern annan eða til hvor annars heldur að ræða saman. Þannig getum við látið góða hluti gerast og þannig getum við útrýmt fátækt. Við getum gert það sem þarf fyrir umhverfið. Við getum tekist á við þessar stóru áskoranir bara með því að tala aðeins saman.