152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

hringtenging rafmagns á Vestfjörðum.

171. mál
[16:58]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að taka undir og er sammála þeirri reifun flutningsmanna sem er að finna í greinargerð þessarar þingsályktunartillögu. Á Vestfjörðum er svo sannarlega lakasta afhendingaröryggi rafmagns á landinu og Vestfirðingar eru háðir innflutningi á raforku, enda framleiða þeir ekki nema 60% af þeirri raforku sem fjórðungurinn þarf á að halda. Það er líka rétt og staðreynd að uppbygging atvinnulífs á Vestfjörðum kallar enn fremur á meiri orku, svo ekki sé nú minnst á orkuskiptin sem fram undan eru. Vatnsbúskapur landsins er þannig núna að Landsvirkjun sér ekki fram á að geta afhent orku eins og þarf til fyrirtækja og orkufyrirtækjanna í landinu. Því er staðan þannig núna á Vestfjörðum að Orkubú Vestfjarða þarf að brenna um 4 milljónum lítra af hráolíu til húshitunar á Vestfjörðum næstu þrjá mánuði. Þetta er eftir að Landsvirkjun tilkynnti að hún afhenti enga raforku til kaupenda skerðanlegrar orku vegna orkuskorts. Viljum við vera þarna? Nei. Hringtenging er einn kostur sem hægt væri að fara í til að laga þetta. En er það nóg og er það eina leiðin?

Í skýrslu Landsnets um flutningskerfi á Vestfjörðum frá 2019 kemur fram að hvati til hringtengingar liggi m.a. í því að aukin raforkuframleiðsla verði í fjórðungnum. Þá er aðallega litið á Hvalárvirkjun sem var, árið 2019 þegar skýrslan kom út, enn í augsýn og hún er í nýtingarflokki í 3. áfanga rammaáætlunar og framkvæmdaraðili hafði óskað eftir tengingu hennar við flutningskerfið. Nú árið 2022 hefur sú sýn dofnað og veruleg óvissa er um þá virkjun. En hvað er þá í kortunum? Það eru nokkrir virkjunarkostir í stöðunni á Vestfjörðum, m.a. Skúfnavötn og Austurgil. Síðan er farið að tala um virkjun í Vatnsfirði. Í nýrri skýrslu Landsnets um áreiðanleika afhendingar á Vestfjörðum, sem kom út í desember, er talað um að virkjun í Vatnsfirði, sem yrði um 20 MW og myndi tengjast Mjólkárvirkjun með stuttri línu eða streng, myndi auka afhendingaröryggi á Vestfjörðum meira en tvöföldun Vesturlínu sem yrði um 160 km leið úr Hrútatungu í Mjólká. Það segir í þessari skýrslu, með leyfi forseta:

„Við þessa tengingu er Mjólká orðin mjög sterkur punktur, hér er reiknað með að ótiltæki virkjunarinnar sé lágt og svipað og annarra vatnsaflsvirkjana. Eins og sést verður ótiltækið mun lægra á öllum afhendingarstöðum á Vestfjörðum, þar sem þeir eru allir háðir afhendingarörygginu í Mjólká.“

Það er einnig talað um að afhendingaröryggi raforku á Ísafirði myndi aukast um 90% við þessa virkjun, ef það væri hægt að tengja hana við Mjólká. Við hringtengingu myndi afhendingaröryggi raforku á Ísafirði til að mynda aukast um 70%. Ég er náttúrlega ekki að tala niður hringtengingu en ég er bara að nefna þær leiðir sem eru færar. En ég er svo bráðlát að ég tel viturlegra að það taki styttri tíma, og er viss um það, og ódýrara að koma þessari virkjun í Vatnsfirði á og ég held að það sé brýnt.

En það þarf líka að huga að öðru. Ég hef skráð núna þingsályktunartillögu á þessu þingi sem ég er að flytja í þriðja skipti um smávirkjanir. Þær eru mjög mikilvægur liður í þessari uppbyggingu og það hefur sannað sig að þær eru mjög mikilvægar á Vestfjörðum til að treysta og bæta öryggi dreifiveitna. Það þarf að einfalda regluverkið og stytta þann tíma sem tekur að koma því í framkvæmd þar sem þær eiga við. Svo hægt sé að nýta smávirkjanir í auknum mæli þarf að endurskoða lög og reglugerðir sem gilda um leyfisveitingar til uppsetningar þeirra með það að markmiði að einfalda umsóknarferli í tengslum við þær. Eins og hefur fram komið þá munu smávirkjanir tengjast raforkukerfinu um dreifiveitur landsins og styrkja þannig þær flutningsleiðir. Með smávirkjunum er verið að nýta, styrkja og bæta rekstur þess raforkukerfis sem nú þegar hefur verið byggt upp af samfélaginu. Smávirkjunum á Vestfjörðum hefur fjölgað og þær hafa sannað sig sem mikilvægur liður í raforkuöryggi á svæðinu.

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að taka undir það sem segir í þessari þingsályktunartillögu, að afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum er ólíðandi og við verðum að bæta þar úr. Það kom fram í máli orkubússtjóra á Ísafirði í útvarpinu um daginn, Elías Jónatansson heitir hann, að sá kostnaður sem orkubúið þarf að fara í með því að keyra þessar vélar sem eru notaðar til að hita upp hús á olíu, fjarvarmaveitur til húshitunar á Vestfjörðum, verður um 400 millj. kr. Þetta hirðir upp tekjur og hagnað fyrirtækisins kannski næstu tveggja ára og á meðan fara þeir ekki í það viðhald sem þeir hafa þó verið að vinna að á síðustu árum, dregur alla vega úr því. Ég tek undir að það þarf að bæta öryggi rafmagns á Vestfjörðum en það eru fleiri leiðir en hringtengingin og við verðum að horfa á besta kostinn og það strax.