152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

142. mál
[18:14]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Frú forseti. Landbúnaður, undirstöðuatvinnugrein búsetu á Íslandi frá landnámi, berst nú fyrir tilveru sinni. Það er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu þegar við horfum upp á að það hafi verið sótt núna árum saman að þessari grein úr ólíkum áttum og er orðið erfitt fyrir bændur að halda áfram búskap. Afleiðingarnar af því ef íslenskur landbúnaður nær ekki að fara úr vörn í sókn yrðu gríðarlega miklar og neikvæðar fyrir allt landið á hinum ýmsu sviðum.

Ég nefndi að sótt væri að greininni úr mörgum áttum. Það má t.d. nefna að gerðir hafa verið mjög óhagstæðir tollasamningar, ekki hvað síst við Evrópusambandið, innflutningur hefur aukist, heimilað hefur verið að flytja inn til að mynda hráar og ógerilsneyddar matvörur. Búvörusamningar hafa verið lakari en áður var og sérstaklega í samanburði við aðrar stéttir sem hafa mikilvæg hlutverk fyrir samfélagið og kostnaður búanna hefur aukist gríðarlega, m.a. kannski ekki hvað síst vegna sífellt meiri krafna sem lagðar eru á bændur hvað varðar aðbúnað og fleira. Aðföng hafa öll hækkað í verði á sama tíma. Það þarf að bregðast við, stjórnvöld þurfa að bregðast við með afgerandi hætti.

Í þessari þingsályktunartillögu lýsum við því hvernig megi snúa vörn í sókn, hvernig megi fara úr þessu hættuástandi, það er hættuástand sem landbúnaður stendur frammi fyrir og þar af leiðandi matvælaframleiðslan á Íslandi, og nýta þá þess í stað sóknarfærin, byggja upp, auka verðmætasköpun í landinu, bæta kjör bænda og þeirra sem starfa við matvælaframleiðslu og þar með hag þjóðarinnar allrar.

Tillagan tekur á mjög mörgum þáttum sem varða landbúnað á Íslandi. Taldir eru upp 24 sérstakir liðir og allt helst þetta í hendur. Þetta er heildaráætlun um hvernig megi hefja þessa sókn. Við leggjum til að forsætisráðherra verði falið að fylgja þessu eftir. Hvers vegna gerum við það? Jú, vegna þess að þetta er slíkt hagsmunamál fyrir samfélagið allt á svo mörgum sviðum að það heyrir undir forsætisráðherra að bregðast þarna við, grípa inn í og tryggja vöxt og viðgang þessarar greinar.

Við erum alveg ófeimin við að nefna að við leggjum til stóraukinn stuðning við landbúnað. Landbúnaður á Íslandi er styrktur eins og í öðrum sambærilegum löndum, jafnvel minna en til að mynda í Noregi og Sviss, en það sem við fáum í staðinn er hins vegar margfalt verðmætara. Í þessu, eins og svo mörgu öðru, þarf að líta á heildaráhrifin. Það er oft skortur á því þegar teknar eru ákvarðanir um útgjöld ríkissjóðs því að heildaráhrifin af því að vera með sjálfstæða, heilnæma, góða matvælaframleiðslu, heildaráhrifin, efnahagslegu áhrifin, fyrir samfélagið eru það mikil að framlög til greinarinnar eru nánast smávægileg í samanburði. Við erum ítrekað, með reglulegu millibili, minnt á mikilvægi þessarar greinar. Hún bjargaði Íslandi til að mynda líklega frá gjaldþroti í bankahruninu þegar engu mátti muna að ekki væri til nægur gjaldeyrir til að halda rekstri ríkisins gangandi, viðskiptum við útlönd, en með því að spara um 50 milljarða kr. á ári í gjaldeyri skipti landbúnaðurinn sköpum á þeim tíma. Aftur vorum við minnt á mikilvægi þessarar greinar þegar faraldurinn hófst og upp komu spurningar um hvernig myndi ganga að viðhalda flutningi á vörum milli landa og framleiðslu.

Þrátt fyrir þessar stóru áminningar hafa stjórnvöld ekki brugðist við í samræmi við það. Þvert á móti heyrir maður oft umræðu hér í þinginu á þeim nótum að verið sé að setja of mikinn pening í landbúnaðinn. En, frú forseti, 16 milljarðar á ári í samanburði við allt hitt, ég tala nú ekki um ráðstafanir til að koma til móts við aðra atvinnuvegi vegna faraldursins, í samanburði við hin ýmsu útgjöld ríkissjóðs, eru ekki miklir peningar, enda skila þeir sér margfalt til baka. Við þurfum því að líta á heildarmyndina og þar hefur verið skortur á.

En þrátt fyrir að greinin sé í talsverðri vörn núna, og raunar í hættu, eru sóknarfærin engu að síður mikil ef við bara ákveðum að nýta þau; sjálfbærni íslensks landbúnaðar, heilnæmi framleiðslunnar, það fyrirkomulag að byggja á fjölskyldubúum eins og við höfum gert frá landnámi, möguleikar á að nýta orkuskipti, framleiðsla áburðar á Íslandi, aftur er komin upp umræða um það, sem fyrrverandi þingmaður, Þorsteinn Sæmundsson, var nú seinþreyttur að vekja athygli á að væri hagsmunamál og umhverfismál fyrir þjóðina, en einnig framleiðsla á ýmsum nýjum vörum, nýjum afurðum, hvers konar prótínum til að mynda með aðferðum sem voru ekki einu sinni þekktar áður.

Þar hafa íslensk nýsköpunarfyrirtæki skilað ótrúlega miklum árangri enda verður nýsköpun oft ekki hvað síst til upp úr gömlum undirstöðuatvinnugreinum. Þetta eru ekki andstæður, þvert á móti, en þeim mun betur sem atvinnugreinarnar standa, þeim mun betur eru þær í stakk búnar til að ráðast í nýsköpun og búa til nýjar afurðir og auka verðmætasköpun. Við sjáum sem dæmi hvað sjávarútvegurinn hefur skipt miklu máli við það að renna stoðum undir hvers konar nýsköpun á Íslandi.

En eins og ég gat um áðan þarf allt að haldast í hendur. Það að ráðast í eina aðgerð, eins og stöku sinnum hefur verið gert, bráðabirgðaaðgerð til að taka á sérstökum vanda, er engin lausn til lengri tíma. Það að nálgast þetta með bráðabirgðaaðgerðum sem koma oft of seint og eru of litlar er ekki til þess fallið að við komumst úr því sem gæti orðið mjög dýr vörn yfir í arðbæra sókn. En við höfum tækifæri til þess með því að ráðast í allt samtímis, láta allt spila saman og fylgja því eftir með þeirri fjárfestingu sem þarf.

Við munum þurfa, samhliða þessu, að endurskoða til að mynda þá óhagstæðu samninga sem ég nefndi áðan. Það var auðvitað kjörin staða þegar Bretland gekk úr Evrópusambandinu ekki alls fyrir löngu til þess að fara fram á endurskoðun óhagstæðs tollasamnings við Evrópusambandið. Þess í stað sjáum við nú stjórnvöld nálgast það á þveröfugan hátt, þ.e. með því að áforma að heimfæra þennan óhagstæða samning við Evrópusambandið á Bretland. Auðvitað ættum við að fara hina leiðina og segja: Nú eru forsendur breyttar og við þurfum samning sem hentar okkur betur, hentar betur atvinnugreininni hér á Íslandi og því að undirstöðuverkefni okkar að viðhalda þessari atvinnugrein. Það sama á við um samninga um innflutning á hráum, ófrystum og ógerilsneyddum matvælum.

Nú var í fréttum fyrir skömmu að Íslendingar gætu ekki lengur keypt kókópöffs. Það stafar af því að Evrópusambandið samþykkir ekki eða er ekki búið að samþykkja formlega eitthvert litarefni sem er notað við framleiðsluna. Með öðrum orðum er verið að nota kerfið sem viðskiptahindrun. Bandaríkin loka svo á einhverjar vörur frá Evrópu vegna þess að þau eru ekki með einhver efni í matvælum þaðan á sínum lista þrátt fyrir að það séu engar verulegar vísbendingar, eða engar vísbendingar, um að það séu skaðleg efni. Hins vegar liggur fyrir að í innfluttum matvælum leynast oft á tíðum skaðleg efni fyrir neytendur. Sýklalyfjanotkun er mjög óhófleg í matvælaframleiðslu víða á stórum erlendum verksmiðjubúum. Sama á við um aðra lyfjanotkun og það hafa sérfræðingar bent á. Þeir hafa bent á hættuna sem því fylgir en ef Evrópusambandið getur komið í veg fyrir innflutning á kókópöffsi af því að þar er litarefni sem er ekki komið með rétta e-númerið þá hljótum við að geta varist innflutningi á matvælum sem geta skaðað heilsu landsmanna og eru hvað það varðar í allt öðrum gæðaflokki en íslensk matvæli, þar sem áherslan hefur verið á hreina framleiðslu og raunar umhverfisvæna framleiðslu líka.

Hún er hins vegar auðvitað dýrari en framleiðsla á verksmiðjubúum þar sem beitt er sterum til þess að auka kjötframleiðsluna. Að sjálfsögðu hlýtur hún að vera dýrari fyrir vikið, en verðmætin skila sér enn og aftur margfaldlega til baka. Raunar er það mjög áhugavert og merkilegt hversu tiltölulega ódýr íslensk matvæli eru miðað við kostnaðinn sem íslenskir bændur og matvælaframleiðendur þurfa að leggja í samanborið við erlendu framleiðendurna.

Það er einfaldlega rangt út frá samkeppnissjónarmiðum að láta íslenska bændur, fjölskyldubúin, þurfa að uppfylla allar þessar miklu og dýru kröfur sem lagðar eru á þau en þurfa á sama tíma að keppa við framleiðslu úr verksmiðjubúum í útlöndum þar sem starfsfólkið er margt hvert á launum sem þættu engan veginn boðleg á Íslandi og væru raunar ólögleg. Ég held að engin önnur starfsstétt á Íslandi myndi sætta sig við það til að mynda að hér yrði flutt inn starfsfólk til að vinna verkefni á margfalt lægri launum en heimil eru á Íslandi. En þetta er engu að síður í rauninni sú staða sem íslenskur landbúnaður hefur verið settur í, að þurfa að keppa við undirboð erlendrar framleiðslu. Flæði þessarar framleiðslu hefur aukist og fyrir vikið hefur samkeppnisstaða íslensks landbúnaðar skekkst.

Eins og ég gat um í upphafi er þetta mjög viðamikil áætlun og ekki tími í stuttri ræðu að fara yfir hvert atriði fyrir sig en þau haldast öll í hendur. Sé ráðist í þessa aðgerðaáætlun í heild munum við ná að komast úr dýrri vörn í arðbæra sókn en verði ekki gripið til þeirra ráðstafana sem þarf þá horfum við á áframhaldandi fækkun íslenskra búa, áframhaldandi kjararýrnun íslenskra bænda og annarra sem starfa í matvælaframleiðslu og gríðarleg áhrif á samfélagið, enda er landbúnaður víða undirstaða annarrar byggðar. Ef sveitirnar leggjast í eyði eða jarðirnar verða seldar til einhvers annars en framleiðslu mun það kippa stoðunum undan svo mörgu öðru. Bændur eru auk þess mjög virkir í því að sinna mikilvægum hlutverkum í sínum byggðum, bæði í atvinnulegu tilliti og félagslegu.

Þetta mál er spurning um að gera það sem þarf til að viðhalda búsetu á Íslandi á þann hátt sem við höfum upplifað í meira en 1000 ár, þ.e. að landið sé byggt hringinn í kringum Ísland, þar sem það er byggilegt, og að við framleiðum okkar eigin matvæli, frú forseti, og í meira mæli en nú er.