152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

142. mál
[18:29]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og get tekið undir margt af því sem þingmaðurinn segir um að við þurfum að efla matvælaframleiðslu á Íslandi. Það er bráðnauðsynlegt og þar er ég sjálfur að horfa fyrst og fremst á kornræktina sem hægt er að ráðast í og mun geta hjálpað okkur verulega til að styðja við þau svæði sem eru mjög hæf til að stunda garðyrkju en við höfum ekki lagt nógu mikla rækt við. Ég rek aftur á móti augun í margt þarna sem ég er ekkert alveg viss um að ég geti skrifað undir og vil segja að við erum og höfum verið frumframleiðsluland alveg síðan Ísland byggðist. Við átum okkar kjöt og fisk úr tunnum, súrt og saltað hérna áður fyrr, en við erum í samskiptum við aðrar þjóðir með framleiðsluna okkar og þurfum á samningum við aðrar þjóðir að halda. Þarna er hins vegar verið að leggja til að við skerum á og afnemum ákveðna samninga sem við höfum gert við aðrar þjóðir vegna þess að við þurfum ekki á samskiptum að halda. Gerir þingmaðurinn ráð fyrir því að þær séu viljugar til samstarfs um samninga við okkur á öðrum sviðum ef við ætlum að hafna þeim á þessum sviðum?