152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

142. mál
[18:31]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel enga ástæðu til að ætla að aðrar þjóðir verði ekki tilbúnar í samstarf á hverju því sviði þar sem eru sameiginlegir hagsmunir af samstarfi. Þau svið eru auðvitað mörg en á sviði matvælaframleiðslu er Ísland engin undantekning hvað það varðar að við þurfum að taka mið af aðstæðum okkar hér og óheftur innflutningur á matvælum til að mynda, bara til þess að líta á stærstu myndina, myndi leggja innlenda framleiðslu í rúst vegna þess að til að mynda eitt danskt mjólkurbú gæti bara með umframframleiðslu náð að dekka íslenska markaðinn og losa sig við hana hingað. Samningar þurfa að vera byggðir á gagnkvæmum hagsmunum. Það eru ekki hagsmunir okkar að gera samninga sem opna enn frekar á innflutning frá verksmiðjubúum sem í mörgum tilvikum nota sýklalyf, jafnvel stera, til að auka framleiðsluna og sem eru með fólk í vinnu á kjörum sem væru ólögmæt á Íslandi og ætlast til þess að íslensku fjölskyldubúin keppi við þetta. Þetta eru samningar sem eru óhagstæðir okkur Íslendingum og fela með öðrum orðum ekki í sér gagnkvæma hagsmuni.