152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

142. mál
[18:35]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Matvælaverð á Íslandi er ekki hlutfallslega mjög hátt ef litið er til tekna, þ.e. ef verðlag er leiðrétt fyrir tekjum á hverjum stað fyrir sig. Þannig sýnir alþjóðlegur samanburður að það hlutfall ráðstöfunartekna sem fer í matvælakaup er miklu lægra á Íslandi en í mörgum öðrum Evrópulöndum. Það mætti til að mynda nefna Spán í því samhengi þó menn ímyndi sér sjálfsagt að þar séu matvæli mjög ódýr. Íslensku vörurnar hafa oft á tíðum haldið aftur af verðhækkunum á matvælum og verið hlutfallslega hagkvæmari en þær innfluttu og við ættum að varast fordæmi eins og frá Finnlandi þar sem auknar heimildir til innflutnings leiddu einfaldlega til þess að smásalinn, matvöruverslanirnar, hækkuðu álagið á vörurnar. Matvæli eins og mjólkurafurðir og kjöt eru á mjög samkeppnishæfu verði miðað við staði á borð við New York. Verðlag er ólíkt innan landa. Ef menn fara í matvöruverslun í New York og skoða hvað mjólkin kostar, skoða hvað kjötið kostar þá sjá þeir verð sem oft og tíðum er miklu hærra en á Íslandi. En svo er hitt, sem er kannski aðalatriðið í þessu, að það er hagkvæmt fyrir þjóðina, fyrir heildarhagsmunina, við þurfum nú að líta til þeirra líka, fyrir heildarhagsmuni þjóðarinnar að kaupa innlenda vöru. Lítum á heildarmyndina og hún er íslenskum landbúnaði mjög í hag. Ég held að það væri mjög hættulegt ef við færum að meta aðrar atvinnugreinar á sömu forsendum að jú, við gætum fengið hlutina á miklu ódýrari hátt (Forseti hringir.) ef við værum ekki að fylgja öllum þessum íslenskum lögum (Forseti hringir.) um launakjör og slíkt.