152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

142. mál
[18:43]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni varðandi orkumálin. Auðvitað hafa samningar okkar á því sviði eða aðsendar reglugerðir ekki endilega reynst okkur vel, líka til að mynda varðandi áhrifin af því að aðskilja flutning og framleiðslu. Ég er þeirrar skoðunar að Landsvirkjun eigi í ákvörðunum sínum að líta til heildaráhrifa fyrir samfélagið, ekki bara þess hagnaðar sem menn sjá á bókunum eftir árslok heldur heildaráhrifa fyrir samfélagið. Þá væru teknar ákvarðanir til að mynda á þeim nótum sem hv. þingmaður nefnir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir með mér að það skorti stundum á skynsemi í því hvernig menn nálgast þessi mál, þetta mikilvæga svið, matvælaframleiðsluna á Íslandi, hvort sem það eru smáatriði eða stærri. Ég nefni eitt dæmi af hvoru tagi. Ég hef t.d. orðið var við það að skyrneysla mín hefur minnkað alveg stórkostlega og tel það nokkurt áhyggjuefni. En yfirleitt nenni ég ekki að reyna að borða skyr með þessu litla pappaspjaldi sem fylgir nú í skyrdósunum og þá er auðveldara að kaupa sér eitthvað annað sem fellur ekki jafn vel að markmiðum um lýðheilsu. Stærra dæmið eru þessi áform þegar verið er að moka ofan í skurði hér og þar og eyðileggja landbúnaðarland án þess að menn hafi nokkra staðfestingu á því að það virki yfir höfuð, a.m.k. er ljóst að ef ekki á að nýta landið til matvælaframleiðslu þá væri betra að öllu leyti að nýta það til skógræktar sem myndi gera miklu meira gagn. En það er svo margt í pólitíkinni nú til dags, m.a. á sviði matvælaframleiðslu, sem líður fyrir einhverja sýndarmennsku.