152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

142. mál
[18:50]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni málflutninginn og spurninguna. Ég er algjörlega sammála því að vottunarmálin hafa ekki verið í nægilega föstum skorðum eða nægilega, við skulum segja aðgengilegum skorðum. Hér var unnið mikið og þarft verk af Ágæti, sem var fyrirtæki sem ég held að Bændasamtökin hafi komið sér saman um um síðustu aldamót. Baldvin Jónsson stýrði því af myndarskap og stóð fyrir útflutningi á íslenskum landbúnaðarvörum, bæði fiski og kjöti, til verslana á borð við Whole Foods og fleiri. En ég er þeirrar skoðunar að við eigum að sammælast um vottunarkerfi sem verður tekið alvarlega og vottun sem verður auðvelt fyrir venjulega bændur og framleiðsluaðila að nálgast og verða sér úti um. Ég held að við stöndumst í flestum tilfellum þær kröfur sem gerðar væru. Það er einn liðurinn í þeirri „bröndun“ sem ég talaði um hér áðan. Við erum hreint land, með hreint vatn, hreint loft og ímynd okkar er nátengd hollmeti, hollustu, útivist og ágæti af ýmsum toga eins og ég var að vísa í hérna áðan. Ég segi: Það er sóknarfæri sem hefur verið örlítið þreifað á en ekki nægilega eftir fylgt. Markaðssetning er dýr og ég held að við eigum að stíga þessi skref og tryggja að því verði fylgt myndarlega eftir með fjármögnun sem gerir okkur öll stolt af íslenskri framleiðslu um heim allan á mörkuðum.