152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

170. mál
[18:53]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið sem í stuttu máli felur í sér að Ríkisútvarpið hverfi í tveimur skrefum út af auglýsingamarkaði. Auk þess sem hér stendur standa að frumvarpinu hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Ásmundur Friðriksson og Hildur Sverrisdóttir. Þetta er í annað skipti sem þetta frumvarp efnislega er lagt fram, hefur tekið nokkrum breytingum með hliðsjón af tímasetningum.

Með frumvarpinu eru, eins og áður segir, lagðar til breytingar á lögum um Ríkisútvarpið, nr. 23/2013, sem fela í sér takmarkanir á fyrirkomulagi auglýsingar Ríkisútvarpsins. Markmiðið er að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart ríkisreknu fjölmiðlafyrirtæki.

Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til nýtt bráðabirgðaákvæði þar sem lagt er til að fyrst í stað verði Ríkisútvarpinu óheimilt að stunda beina sölu á auglýsingum, hlutfall auglýsinga megi ekki fara yfir fimm mínútur á hvern klukkutíma í útsendingartíma, óheimilt verði að slíta í sundur dagskrárliði með auglýsingum og að lokum er lagt til að kostun verði bönnuð. Takmarkanir þessar verði á tímabilinu 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023. Samkeppnisrekstri Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði verði síðan hætt í byrjun árs 2024, samanber 1. gr. frumvarpsins.

Með því að taka Ríkisútvarpið af samkeppnismarkaði auglýsinga í tveimur skrefum gefst annars vegar stjórn Ríkisútvarpsins tækifæri til að aðlaga rekstur að breyttum aðstæðum og sé það hins vegar talið nauðsynlegt frá hendi fjárveitingavaldsins, okkar hér sem förum með löggjöfina, að koma til móts við ríkisfyrirtækið vegna lægri nettótekna hefur fjárveitingavaldið, Alþingi, ágætt svigrúm til þess eða tvö ár. Flutningsmenn telja að með því að Ríkisútvarpið verði dregið út af samkeppnismarkaði auglýsinga og kostunar fái fyrirtækið aukið svigrúm til að sinna því menningarlega hlutverki sem því er ætlað samkvæmt lögum.

Um það verður ekki deilt, frú forseti, að frjáls fjölmiðlun á Íslandi stendur höllum fæti. Á sama tíma og samkeppnisstaðan er skekkt með lögverndaðri yfirburðastöðu Ríkisútvarpsins standa einkareknir innlendir fjölmiðlar frammi fyrir harðri sókn alþjóðlegra stórfyrirtækja inn á auglýsingamarkaðinn. Frjálsir fjölmiðlar eru forsenda opinnar lýðræðislegrar umræðu og veita stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald. Því miður er það svo að stofnanir og fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga eru víða í samkeppni við einkaaðila. Vísbendingar eru um að opinberir aðilar, ekki síst opinber hlutafélög, líkt og Ríkisútvarpið er, hafi hert samkeppnisrekstur sinn á síðustu árum. Þegar hið opinbera keppir við einkarekstur er mikilvægt að tryggja jafnræði með eins góðum hætti og kostur er. Reglur verða að vera skýrar og afmarkaðar um umfang opinbers samkeppnisrekstrar. Umsvif opinberra aðila á samkeppnismarkaði geta leitt til skaðlegrar fákeppni, rutt sjálfstæðum rekstri út af markaði og leitt til einokunar. Undir slíkum aðstæðum er nýjum aðilum gert erfiðara fyrir að hasla sér völl á markaði. Leiða má rök að því að samkeppnisrekstur hins opinbera geti unnið gegn markmiði samkeppnislaga sem er að efla virka samkeppni í viðskiptum.

Opinberir aðilar njóta oft forskots á grundvelli laga í samkeppni við einkaaðila. Dæmi um þetta er fjölmiðlarekstur ríkisins undir hatti Ríkisútvarpsins ohf. Augljóst er að samkeppnisrekstur ríkisins hefur verulega neikvæð áhrif á rekstur og fjárhag sjálfstæðra fjölmiðla sem flestir standa höllum fæti. Takmörkun á umsvifum og síðar bann við samkeppnisrekstri á sviði auglýsinga og kostunar ætti því að öðru óbreyttu að bæta hag sjálfstæðra fjölmiðla.

Samkvæmt ársreikningi Ríkisútvarpsins námu tekjur af samkeppnisrekstri á árinu 2020 1.946 millj. kr., þar af námu tekjur af auglýsingum 1.624 millj. kr. Óvarlegt er hins vegar að ætla að þær tekjur sem ríkisfyrirtækið hefur haft af sölu auglýsinga og kostunar komi óskertar í hlut sjálfstætt starfandi fjölmiðla eftir 1. janúar 2024. Þó má ætla að tekjur þeirra aukist verulega og mun meira en gert er ráð fyrir að hið opinbera veiti í beinan stuðning til einkarekinna fjölmiðla.

Flutningsmenn telja að skynsamlegra sé að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla með því að takmarka verulega samkeppnisrekstur ríkisins fremur en að koma á flóknu kerfi millifærslna og ríkisstyrkja. Með því er stuðlað að auknu heilbrigði á fjölmiðlamarkaði.

Frú forseti. Ef það er vilji stjórnvalda, ef það er raunverulegur vilji okkar sem hér sitjum að styðja við fjölbreytni í fjölmiðlum og búa svo um hnútana að sjálfstæðir fjölmiðlar fái að þrífast, fái að eflast, þá verður ekki hjá því komist að breyta lögum um Ríkisútvarpið. Það verður ekki hjá því komist að jafna leikinn. Annars verðum við í sporum læknisins sem greinir meinið en neitar að skera upp til að koma sjúklingnum til heilbrigðis, velur fremur að gefa honum verkjalyf, lina þjáningar hans. Ef við höfum ekki burði til þess að jafna leikinn með breytingu á lögum um Ríkisútvarpið þá erum við í sporum læknisins sem neitar að skera meinið í burtu og við sem í orði segjumst síðan ætlað að styðja við og styrkja sjálfstæða fjölmiðla veljum þá leið að stinga þeim í súrefnisvél ríkisins.

Nú skal það játað og kemur engum á óvart að ég hef alla tíð haft miklar efasemdir um það að rök séu til þess að ríkið sé yfir höfuð að reka fjölmiðil. En ég skil marga sem eru sannfærðir um nauðsyn þess ekki síst að styðja við og efla menningu, sögu og tungu þessarar þjóðar. Ég er ekki sammála því viðhorfi en ég skil það og ég ber virðingu fyrir því. En ef við ætlum að gera þá málamiðlun að við skulum standa með skynsamlegum hætti að rekstri ríkisútvarps einmitt með það að markmiði að styðja við menningu okkar og sögu, efla tungu og þjóðarvitund, þá skulum við gera það með þeim hætti að það hafi sem minnst áhrif á rekstur og framgang sjálfstæðra fjölmiðla. Það gerum við m.a. með því að koma í veg fyrir það að ríkið beiti ofbeldi eins og gert er í samkeppnisrekstri, í þessu tilfelli samkvæmt þessu frumvarpi á auglýsingamarkaði.

Herra forseti. Það vill svo heppilega til að hér fyrr í dag var öðru frumvarpi dreift sem hefði kannski verið ágætt að yrði rætt hér, kemst vonandi á dagskrá eftir ekki allt of langan tíma, sem tengist ekki Ríkisútvarpinu en er ein af þeim leiðum sem ég hef verið að reyna að berjast fyrir ásamt félögum mínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um að styðja við og efla rekstur sjálfstæðra fjölmiðla, gefa þeim raunveruleg tækifæri til að eflast og styrkjast og sinna sínu hlutverki sem er að miðla upplýsingum, miðla fréttum og veita okkur sem hér erum, stofnunum, fyrirtækjum, atvinnulífinu, hagsmunasamtökum, eðlilegt og nauðsynlegt aðhald. Það frumvarp snýr að því að sníða skattumgjörð sjálfstæðra fjölmiðla með aðeins sanngjarnari hætti, þ.e. að við viðurkennum að það er ýmislegt hér, ekki bara rekstur Ríkisútvarpsins heldur líka óeðlileg samkeppni sem kemur frá alþjóðlegum risum sem ekki bara gera strandhögg þegar kemur að auglýsingatekjum sjálfstæðra miðla og í rauninni líka Ríkisútvarpsins heldur gera annað strandhögg sem er jafnvel enn erfiðara, sem er að nýta sér það efni sem þessir fjölmiðlar leggja í og standa af veikum mætti undir að búa til. Sumir gætu fært rök fyrir því að um hreinan stuld sé að ræða. Þetta frumvarp sem ég er að tala um er á þskj. 358, 254. mál, og snýr að því að gera breytingar á lögum um tryggingagjald þannig að tryggingagjald leggist ekki á laun þeirra starfsmanna sem nauðsynlegir eru sjálfstæðum fjölmiðlum, hvort heldur það er útvarp, sjónvarp, dagblöð, tímarit, vefmiðlar til að koma og búa til efni. Það þýðir blaðamenn, ljósmyndarar, tæknimenn, auglýsingasölumenn o.s.frv., upp að ákveðnu hámarki. Það verði ekki lagt á tryggingagjald fyrr en menn eru í efsta skattþrepi í launum.

Ég taldi mér rétt og skylt að vekja athygli á þessu. Ég tel að ef við bærum gæfu til þess að stíga þessi tvö skref, að samþykkja frumvarpið sem ég er að mæla hér fyrir um að stuðla að heilbrigðara umhverfi fyrir fjölmiðla á Íslandi, að það sé sæmilegt jafnvægi, sæmileg sanngirni sem ríki hér í rekstri fjölmiðla, með því að draga Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði, og höfum síðan burði til að samþykkja þetta frumvarp sem ég var að minnast á varðandi tryggingagjaldið þá fullyrði ég að fátt muni efla íslenska fjölmiðlun og fjölmiðlaflóru meira en þetta tvennt. Ég skora á þingheim að leggja mér lið í þessum efnum og ég heiti ykkur því að ekkert ykkar mun sjá eftir því.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpið gangi til allsherjar- og menntamálanefndar.