152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

170. mál
[19:08]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn, þingheimur og þjóðin öll að sjálfsögðu. Sú var tíðin þegar ég var að byrja að hafa afskipti af rekstri að ég sá um félagsheimilið Festi í Grindavík, það var á árunum 1974–1977. Þá var það þannig að ef ég auglýsti þrjá daga í Ríkisútvarpinu og eina tveggja dálka auglýsingu í Mogganum þá vissi öll þjóðin að það var ball í Festi. Þetta var dásamlegt og maður hafði engar áhyggjur af því hvernig ætti að auglýsa. Ég er búinn að vera að auglýsa hjá öllum fjölmiðlunum í meira og minna í 40 ár en síðastliðin 17 ár hef ég aðallega verið tengdur auglýsingum í ljósvakamiðlum, bæði hjá Bylgjunni og þeirra stöðvum og öllum stöðvum utan RÚV. Ég hef áhyggjur af því hvert fyrirtæki sem höfða til fjöldans, eins og fyrirtækið sem ég tengdist áður fyrr, eiga að leita ef ekki eru lengur auglýsingar í þeim fjölmiðlum sem mikið er hlustað á.

Ég elska að auglýsa á Bylgjunni en ef Ríkisútvarpið dettur út af auglýsingamarkaði þá veit ég ekki alveg hvert þeir sem reka fyrirtæki sem höfða til fjöldans eiga að leita til að koma upplýsingum sínum að og líka hið opinbera sem þarf að segja fólki frá einu og öðru. Ég held því að það þurfi að hugsa þetta til enda.