152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

170. mál
[19:10]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er auðvitað raunveruleg ábending sem hv. þm. Tómas A. Tómasson bendir hér á: Lífið var einfaldara í gamla daga. Ég man eftir því, þegar ég vann á Morgunblaðinu sem blaðamaður og Baldvin Jónsson var þar auglýsingastjóri, að þá var lífið tiltölulega einfalt fyrir auglýsendur. Bílaumboðin þurftu bara að kaupa eina heilsíðu í Morgunblaðinu á sunnudegi og kaupa síðan eina birtingu í Ríkisútvarpinu, sjónvarpi á laugardagskvöldi og landið og miðin voru dekkuð. En síðan hefur samfélagið breyst. Það hefur bara breyst og það mun breytast og þetta er framþróun. Ég held að við ættum fremur að velta því fyrir okkur: Er ekki einhver allsherjartímaskekkja fólgin í því á 21. öld að við teljum nauðsynlegt að reka hér ríkismiðil í samkeppni við alla þá flóru sem gæti verið miklu blómlegri en er? Það er meira að segja þannig að þegar kemur að samkeppnisrekstri ríkisfyrirtækja og Ríkisútvarpsins sérstaklega getur Ríkisútvarpið ekki einu sinni séð í gegnum fingur sér þegar einstaklingar finna litla syllu til að gera sér einhvern mat úr, sem heitir hlaðvarp. Þá skal Ríkisútvarpið fara í sérstaka hlaðvarpsþáttagerð. Ég er ekki að tala um að birta þá þætti sem eru gerðir og eru spilaðir í útvarpið. Nei, heldur sérstakir hlaðvarpsþættir, einmitt vegna þess að þeir sáu að það voru einhverjir einstaklingar sem voru að búa til hlaðvarpsþætti sem nutu mikilla vinsælda, öfluðu tekna o.s.frv. Nei, þá varð ríkið að ná sér í. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður, þú bara kemur í þessa för með mér. Ég bið þig um það.