152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

170. mál
[19:13]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir yfirferðina hér. Ég er mikill stuðningsmaður frjálsrar fjölmiðlunar. Ég er mjög þakklátur fyrir þá sem hafa treyst sér út á þann skreipa akur á þeim örmarkaði sem Ísland er. Án Stöðvar 2 og Sjónvarps Símans og hinna fjölmiðlanna værum við fátækari. Þá væru færri möguleikar til miðlunar efnis, tónlistar þar með talið. En ég er með spurningu til hv. þingmanns sem er raunveruleg og hún er ekki sprottin úr í mínum huga heldur af því sem ég hef heyrt utan að mér í þessu samhengi.

Ég þekki fjölmarga í heimi kvikmyndagerðarmanna sem hafa áhyggjur af þessu af þeirri sérstöku ástæðu að Ríkisútvarpið er langstærsti fjölmiðill landsins og sá sem flestir horfa á; ríkissjónvarpið hefur slíka yfirburði í auglýsingamætti sínum að ef sjónvarpsauglýsingageirinn, þ.e. fyrirtækin í landinu sem verja stundum tugum milljóna í eina auglýsingu sem fer í birtingu, þá á öllum miðlunum — ef ríkissjónvarpið væri klippt út, hafa menn áhyggjur af því að auglýsingagerð fyrir sjónvarp myndi leggjast af, þ.e. ef einungis væri í boði að birta slíkar auglýsingar á áskriftarmiðlum. Ég spyr hv. þingmann: Hvernig teldi hann þessu best varið þannig að ekki legðist af?