152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

greining á samúðarþreytu og tillögur að úrræðum.

241. mál
[19:35]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Norðaust. fyrir þessa þingsályktunartillögu. Hún er gríðarlega mikilvæg. Við tölum svo oft um heilbrigðisstarfsfólk í þessu samhengi. Eitt sem við þurfum líka að taka rosalega sterkt inn í þessa umræðu og inn í þennan starfshóp er löggæslan. Löggæslan er ekki síst að bugast í Covid og í öllum þessum verkefnum. Við keyrum rosalega mikið á starfsfólki, t.d. lögreglumönnum, sem er með innan við fimm ára reynslu af því að við erum að missa fólk í kulnun út af álagi. Þetta er fólkið sem fer inn í hættulegustu aðstæðurnar, sem er í samskiptum við fólk sem er jafnvel á erfiðustu stundu lífs síns þegar lögreglan kemur til hjálpar. Þegar lögreglumennirnir koma að þá eru það oft jafnvel ömurlegustu aðstæðurnar, alveg eins og þegar heilbrigðisstarfsfólkið kemur að málum. Ég brýni þá sem taka þetta mjög svo mikilvæga verkefni að sér að huga vel að lögreglumönnunum líka því að þeir eru líka í gríðarlegri hættu og samúðarþreyta hjá þeim er mjög algeng.

Ég fagna þessu, þetta er virkilega gott mál.