152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

afgreiðsla ríkisborgararéttar.

[10:34]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég ætla að taka heils hugar undir það sem kom fram hér áðan hjá hv. þingmönnum sem töluðu á undan mér. Upplýsingagjöfin til allsherjar- og menntamálanefndar í þessu máli hefur verið sérkennileg. Ég trúi því og treysti að þeir sem komu fyrir nefndina, hvort sem er fulltrúar frá stofnunum ríkisins eða embættismenn innan úr ráðuneytunum, geri það af fullum heilindum. Upplýsingagjöfin til nefndarinnar hefur hins vegar verið þversagnakennd. Það sem þeir sem koma í umboði ráðherra á fyrri stigum segja er í algerri mótsögn við það sem ráðherra sjálfur segir í greininni sem vitnað var til fyrr í umræðunni.

Ég tek undir það að forseti þingsins hlýtur að beina því til hæstv. ráðherra, sem fer með málaflokkinn, að hann vandi upplýsingagjöf sína til þingsins og að hann fari að landslögum. Það er ekki stofnunar eða ráðuneytis að ákveða að breyta verklagi sem bundið er í lög. Virðing Alþingis er meiri en svo að þetta sé hægt að líða.