152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

afgreiðsla ríkisborgararéttar.

[10:39]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Í grein sinni á Vísi í gær og líka í máli sínu hefur hæstv. innanríkisráðherra talað við þingið líkt og þingið þekki ekki forsöguna og það sé einhver misskilningur í gangi. Það er hins vegar ekki tilfellið. Tilfellið er að rætt hefur verið um breytt verklag nú um nokkurt skeið en ekki náðst samkomulag. Ég tek undir það með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson, sem kom hér upp áðan, að þetta vekur því miður upp áhyggjur af viðhorfum ríkisstjórnarinnar almennt til þingsins. Það sem er að gerast hér er að ráðherra er að rugla saman sínum persónulegu skoðunum á því hvernig fyrirkomulag afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt á að vera á Íslandi og skyldu stjórnvalda til að afhenda gögn sem þingið hefur farið fram á. Beiðni þingnefndarinnar til Útlendingastofnunar var mjög skýr, það var mjög skýrt hvaða gögnum (Forseti hringir.) var verið að falast eftir. Það er ekki misskilningur að þessi gögn hafi ekki verið afhent, það er einbeitt viljaverk.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir enn á ræðutíma, sem er takmarkaður.)