152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

afgreiðsla ríkisborgararéttar.

[10:42]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sem tók til starfa seint í nóvember, vil ég segja að það kom okkur vissulega á óvart að það hefði orðið breyting á verklagi Útlendingastofnunar. En það er alveg ljóst að það bréf barst til þáverandi allsherjar- og menntamálanefndar. Ég get tekið undir að ráðuneyti eða stofnanir ákveða ekki einhliða breytt verklag þingsins, það er alveg ljóst. En við höfum átt góðan fund með ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins þar sem er bent á þá annmarka sem uppi eru við það fyrirkomulag sem viðhaft hefur verið hér á síðustu misserum. Það lýtur að jafnræði þeirra sem eru að sækja um ríkisborgararétt. Við hljótum að sjálfsögðu að vilja gæta að því jafnræði þannig að ég tek undir það sem sagt hefur verið hér, við þurfum að finna betra framtíðarfyrirkomulag. En ég er þess fullviss að þegar við setjumst niður með fulltrúum Útlendingastofnunar, sem núna hafa sent okkur þær umsóknir sem borist hafa, (Forseti hringir.) umsagnir um þær umsóknir sem þeir hafa náð að fara yfir, þá getur undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar komist (Forseti hringir.) að góðri niðurstöðu og sátt í þessu máli. Við hljótum öll að vilja öll leysa þetta.