152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

orkumál og stofnun þjóðgarðs.

[11:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Nú kann að vera að hv. þingmaður taki línuna frá Evrópusambandinu en ég horfi til þess að við séum ekki á þeim stað. Við erum að horfa á það markmið að við ætlum að verða óháð jarðefnaeldsneyti og ná mjög metnaðarfullum markmiðum, bæði í samdrætti gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis. Bruni jarðefnaeldsneytis fer einfaldlega ekki saman við þau markmið. Ég vil líka segja að ég þekki ekki til þess, og hv. þingmaður veit kannski meira um það en ég, að nokkrar gaslindir hafi verið kortlagðar hér á svæðinu þannig að þetta mál hefur ekki komið upp með þeim hætti.

Hvað varðar hin friðlýstu svæði er kannski ágætt að rifja það upp að þau eru allnokkur innan miðhálendislínu. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan. Þar er verið að tala um Hveravelli, Kerlingarfjöll, Friðland að Fjallabaki, Þjórsárver og fleiri svæði. En útfærslan hangir auðvitað á þeim niðurstöðum sem koma út úr samráði um þá útfærslu við heimamenn. Endanleg útfærsla birtist því ekki á þessu þingi og verður ekki í frumvarpi ráðherra.