152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

sóttvarnir og takmarkanir á daglegt líf í bólusettu samfélagi.

[11:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að það er fagnaðarefni að von sé á afléttingaráætlun á morgun og það er í mínum huga mjög mikilvægt að hún verði skýr og hún verði tímasett ef ekki á að fara strax í afléttingar. Það mun hjálpa fólki og fyrirtækjum að átta sig á landslaginu.

En mig langar til að ræða aðeins um lærdóminn fyrir okkur hér á þingi. Ég vil byrja á því að nefna hið augljósa, mér finnst að þjóðfélagið og samfélagið í heild sinni hafi staðist prófið og við vitum vel hverja við stöndum í þakkarskuld við; starfsmenn heilbrigðiskerfisins og aðra sem hafa verið í framlínu. En á upphafsstigum faraldursins vantaði mjög mikið upp á það að Alþingi fengi í hendur nauðsynlegar upplýsingar um forsendur sóttvarnaaðgerða sem gripið var til. Við munum það að staðan var erfiðari, bóluefni höfðu ekki verið tryggð og bólusetning var ekki hafin. Strax haustið 2020 lögðum við fram ósk um að heilbrigðisráðherra gæfi þinginu skýrslu reglubundið um stöðuna. Þannig vildum við auka aðkomu þingsins, að ráðherra gerði þinginu grein fyrir áhrifum heimsfaraldurs á heilbrigði og heilbrigðiskerfi, atvinnulíf, ríkisfjármál og hver væru þessi félagslegu áhrif sem eru alltaf að birtast okkur skýrar og skýrar. Þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, varð við þessari ósk okkar og það var mikilvægt, því að þetta gagnrýna samtal varð til þess að styrkja þingið og efla samstöðu innan þess. Þetta höfum við gert frá upphafi, kallað eftir umræðu í þinginu. Síðast töluðum við fyrir því að nauðsynlegt væri að heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra kæmu báðir fyrir þingið ef ríkisstjórnin kynnti nýjar sóttvarnaaðgerðir, en frumkvæðið hjá ríkisstjórninni að þessu leyti hefur vantað. Þó að maður þori varla að nefna Danmörku í dag þá er það nú þannig að dönsk stjórnvöld skildu mikilvægi þingsins og leituðust sjálf við að auka aðkomu þess, það þurfti ekki stjórnarandstöðuna til að biðja um það. Þannig að lærdómurinn í mínum huga er alveg skýr: Gagnrýna umræðu á ekki að óttast, þetta samtal verður að fá að eiga sér stað á vettvangi þingsins og við svona aðstæður á ekki að halda aftur af eftirlitshlutverki þingsins.