152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

sóttvarnir og takmarkanir á daglegt líf í bólusettu samfélagi.

[11:55]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Önnur ríki sýna nú mikinn metnað við að skila frelsinu aftur til fólksins. Forsætisráðherra Írlands sagði er hann boðaði miklar afleiðingar þar í landi að engin rök eða réttlæting væru fyrir því að halda áfram öllum sóttvarnaaðgerðum. Ég veit ekki til þess að veiran hagi sér með öðrum hætti þar en hér. Hér er ríghaldið í allar takmarkanir, þær sömu og gripið var til fyrir um tveimur árum og þá með góðum árangri sem ekki verður tekinn af heilbrigðisyfirvöldum. En nú er veiran orðin önnur. Auðvelt virðist vera að grípa til harðra aðgerða en þegar á að aflétta þeim þarf alltaf að bíða og sjá, eiga skotheld gögn fyrir afléttingunni og helst taka hana í mörgum og flóknum skrefum. Veiran fær alltaf að njóta vafans á meðan gengið er á andlega heilsu okkar, frelsi til athafna og atvinnu og önnur mikilvæg mannréttindi.

Forsendur núgildandi takmarkana eru gjörsamlega brostnar. Ég hef töluverðar áhyggjur af afleiddum vandamálum sóttvarnaaðgerða, eins og fleiri greinilega. Takið eftir að ég segi sóttvarnaaðgerða, ekki veirunnar sjálfrar. Það eru ótæk vinnubrögð að þylja alltaf upp sömu rulluna, að aðgerðirnar miði að því að vernda heilbrigðiskerfið og líf og heilsu landsmanna. Á meðan hrapar geðheilsa þjóðarinnar og lífum er glatað. Fyrirtækjaeigendur skella í lás, fólk fer ekki til læknis vegna hræðslu við að íþyngja heilbrigðiskerfinu með ófyrirséðum afleiðingum og kemst ekki í aðgerðir vegna neyðarástands á Landspítalanum. Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgar. Tilkynningum um aukið kynferðisofbeldi gagnvart börnum fjölgar mikið. Þessu ástandi verður að linna. Það er eðlileg krafa að öllum takmörkunum verði aflétt tafarlaust og ég hvet heilbrigðisráðherra til að taka stærri skref til að komast aftur í eðlilegt samfélag.