152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

sóttvarnir og takmarkanir á daglegt líf í bólusettu samfélagi.

[12:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tel að við Íslendingar höfum verið ótrúlega lánsöm að hafa farið í gegnum þennan heimsfaraldur undir styrkri stjórn þríeykisins góða, öflugs heilbrigðisráðherra VG og núverandi heilbrigðisráðherra, sem hafa fylgt ráðum okkar færustu sérfræðinga. Gripið hefur verið til fjölda efnahagsaðgerða sem skipta miklu máli fyrir fólk og fyrirtæki. Heilbrigðisstarfsfólkið okkar hefur staðið sig vel og annað framlínufólk og almannavarnir og björgunarsveitir. Einkageirinn hefur komið til liðs við okkur í þessum vanda og Íslensk erfðagreining — allt skiptir það sköpum um það að nú erum við að komast út úr þessu ástandi og lífið að komast aftur í eðlilegt horf. Þjóðin hefur sýnt ótrúlega samstöðu og skilning á erfiðum aðgerðum og þó að nú virðist sem úthaldið sé að dvína hjá einhverjum þurfum við að halda okkar styrk til enda. Við þekkjum það úr handboltanum að það er úthaldið á lokametrunum sem skiptir sköpum. Við sáum það í leik Dana í gærkvöldi þegar þeir klúðruðu sínum málum. Við skulum ekki bölva upphátt en gera það í hljóði og læra af því. Það var víti til varnaðar. Höldum okkar úthaldi til enda í glímunni við Covid. Það er engin ástæða til annars en að vera bjartsýn. Við náum örugglega fljótt að koma okkur aftur í eðlilegt horf. Ferðaþjónustan mun örugglega blómstra af fullum krafti. Menning, listir og veitingaþjónusta munu blómstra á ný. Það hefur vissulega margt verið þungbært fyrir almenning í landinu við þessar aðstæður, fyrir viðkvæma hópa, aldraða og þá sem hafa misst ástvini sína. Ég vil sérstaklega nefna unga fólkið okkar sem hefur ekki getað notið sín sem skyldi í blóma lífsins.

Það er alltaf hægt að vera vitur eftir á og segja að gera hefði átt hlutina svona eða hinsegin. En þú tryggir ekki eftir á. Við gerðum þetta saman og við megum vera stolt af því. Það skiptir máli hver heldur um stjórnvölinn við aðstæður af þessu tagi og allt hefur þetta verið gert undir styrkri stjórn Vinstri grænna og heilbrigðisyfirvalda og stjórnvalda í þessu landi og sérstaklega er það þjóðin sjálf sem hefur staðið sig vel.