152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:15]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við afgreiðum hér þingsályktunartillögu forsætisráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu, fjölgun ráðuneyta og heiti þeirra, sem afgreidd var úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Enginn efast um það að skipan ráðuneyta er á ábyrgð framkvæmdarvaldsins og á höndum þess. Það er hins vegar aðdragandi þessa máls og málabúnaður sem gera má athugasemdir við. Hér liggur ekki til grundvallar nein sérstök þarfagreining heldur einfaldlega hugmyndir stjórnarflokkanna þriggja, eða öllu heldur formanna þeirra, um hvernig best sé að skipa ráðuneytum — og fjölga ráðherrum, því að óneitanlega hentaði það líka í þessu uppleggi. En ábyrgðin er þeirra og Samfylkingin mun ekki standa í vegi fyrir því að þessi þingsályktunartillaga verði afgreidd hér í dag.