152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:24]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er með frávísunartillögu í þessu máli. Hún lýtur að því að þessi þingsályktunartillaga er ekki í samræmi við 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Eins og stendur í frávísunartillögunni er hún sett fram með vísan til þess.

Ég er nýr á þingi en ég hefði aldrei trúað því að svona vinnubrögð myndu sjást hérna. Ég er mjög hlynntur því, tek það fram, að ríkisstjórn á hverjum tíma skipuleggi sig, en það að fjölga ráðherrum Framsóknar um einn — það er búið að gera það. Það var gert með forsetaúrskurði 28. nóvember um skiptingu starfa ráðherra, nr. 126. Það er búið að gera þetta og þar kemur t.d. fram að Svandís Svavarsdóttir sé hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Samkvæmt þessu plaggi verður hún matvælaráðherra. Hér er misræmi milli úrskurða. Eftir þetta mun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sitja í hvaða ráðuneyti? Jú, hún mun sitja í matvælaráðuneyti. (Forseti hringir.) Að engum skyldi hafa dottið í hug eða skilið það að ráðuneytið beri heiti ráðherrans — ja, það virðist ekki vera samkvæmt þessari tillögu.