152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Já, ríkisstjórnin má gera það sem hún vill, hún situr í skjóli meiri hluta þings. Við munum nú horfa upp á hvern einasta stjórnarþingmann greiða atkvæði með fjáraustri, með ákvörðun sem er óyfirveguð, óvönduð og illa útfærð og mun líklega verða skaðleg fyrir allan almenning á Íslandi sem mun í kjölfarið fá verri þjónustu frá ráðuneytunum og væntanlega frá undirstofnunum, vegna þess að það mun taka ráðuneytin 18–24 mánuði að jafna sig eftir þessar hrókeringar allar. Það liggur fyrir. Slíkt veldur skaða um samfélagið allt. Ég hvet hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna til að íhuga hvort það sé skynsamlegt að greiða atkvæði með þessari tillögu. Hún er svo illa útfærð og svo ótrúlega vanhugsuð. (Forseti hringir.) Þó að ríkisstjórnin megi þetta þá ber okkur að hugsa um almannahag.