152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:29]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem hefur komið fram í máli hv. þingmanna, það veit hver maður hver tilgangurinn er með þessum breytingum. Ég ætla að lýsa því yfir að ég hef raunverulegar áhyggjur af þessum breytingum. Það snýst ekki um að vera á móti þessu bara til að vera á móti. Við höfðum tilteknar áhyggjur af þessu máli áður en það fór til nefndar og lýstum þeim hér í þingsal. Þá átti eftir að leita álits frá hagsmunaaðilum og öðrum sem sannarlega var ekki leitað til við undirbúning þessarar tilhögunar. Þau álit sem okkur bárust og umsagnir gerðu í raun lítið annað en að auka á áhyggjur mínar og staðfesta þær. Ég hef áhyggjur af þessu. Ég mun ekki standa í vegi fyrir þessu máli þar sem ég er sammála því að það sé á valdi ríkisstjórnar hvers tíma að haga málum í samræmi við sína pólitísku stefnumótun. Ég hef bara áhyggjur af því að það sé ekki það sem er í gangi hér. Þetta er ekki í samræmi við pólitíska stefnumótun, þetta er illa undirbúið. Þetta er ekki í samræmi við bestu skipan mála og (Forseti hringir.) það er einfaldlega vegna þess að markmiðið með þessum breytingum er ekki sett á faglegum grunni.