152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:35]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Eftir að hafa farið yfir málið með hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og tekið á móti gestum og umsögnum deili ég ekki áhyggjum margra hv. þingmanna hér. Ég held þvert á móti að ríkisstjórnin sé bæði að forgangsraða og ná betur utan um þau mál sem hún telur mikilvægust á þessu kjörtímabili. Það skiptir máli að Stjórnarráðið lagi sig að samfélaginu en ekki öfugt. Þetta er liður í því. Ég tel sérstaklega vert að nefna að ég held að það skipti máli fyrir áskoranir framtíðarinnar, fyrir fjórðu iðnbyltinguna, að málefni háskóla, nýsköpunar og vísinda séu undir einum hatti. Ég tel líka mikilvægt að náttúruvernd og orkunýtingu sé ekki stillt upp sem andstæðum heldur sem samspili. Ég vil einnig nefna að ég held að það verði mikil búbót fyrir samfélagið að skipulags-, mannvirkja- og húsnæðismál verði sett undir einn hatt. Ég styð því málið og held að það sé vel ígrundað.