152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:36]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tel mig knúinn að koma aftur upp í pontu til að útskýra mál mitt. Hver er tilgangurinn með 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands? Jú, tilgangurinn er að tryggja að þingheimur fái upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á Stjórnarráði Íslands. Er þetta plagg um fyrirhugaðar breytingar á Stjórnarráði Íslands? Nei. Þær breytingar voru gerðar með forsetaúrskurði 28. nóvember, nr. 126. Þar var fjölgað um einn ráðherra. Þar var meðal annars sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem á núna að sitja í matvælaráðuneyti. Orðalag 2. gr. er alveg skýrt, með leyfi forseta, en þar segir í 1. mgr.:

„Ákveða skal fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Tillagan skal lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem komi þegar til umræðu og afgreiðslu áður en forsetaúrskurður er gefinn út.“

Það er þannig sem lögin eru. (Forseti hringir.) Og stofnun sem er nýlega búin að fá dóm frá Strassborg út af einni merkustu löggjöf sem Íslendingar hafa sett, í Landsréttarmálinu, (Forseti hringir.) ætti kannski að fara að lesa lögin aðeins betur.