152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hæstv. innviðaráðherra lýsti furðu sinni yfir afstöðu Miðflokksins í þessu máli. Ég hef sagt það í ræðum um þetta mál á fyrri stigum að ég fagnaði mjög þeirri breytingu sem er að verða með því að sameina húsnæðis- og mannvirkjamál og skipulagsmál inn í það ráðuneyti sem áður var samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Það er skynsamleg breyting. En í einhverju hringli þarna í lokafrágangi er ákveðið í einhverri furðu að skilja fjarskiptamálin frá öðrum innviðamálum. Það eru svona þættir sem skilja mann eftir í þeirri trú að þetta sé pólitísk aðgerð en ekki gert upp á skynsamlegt flæði innan Stjórnarráðsins. Það er auðvitað þannig að það þurfti ekkert að fjölga ráðuneytum til að ná þeim markmiðum fram að ná húsnæðis- og mannvirkjamálum, skipulagsmálum og öðrum tengdum málum inn í eitt og sama ráðuneytið. Það var bara hægt að færa þá málaflokka til hins gamla samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Það þurfti engan nýjan ráðherra í þeim efnum.