152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:49]
Horfa

vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að fá að koma upp og ræða eitt mest spennandi verkefnið sem ríkisstjórnin boðar með þessum mikilvægu breytingum í málaflokkunum. Ég er ótrúlega ánægð með að verið sé að stíga framsækin skref í stjórnsýslunni sem eru til marks um þá möguleika sem eru til staðar til að hagnýta hugvit, auka fjölbreytni í atvinnulífi og í þeirri mikilvægu stoð sem hugverkageirinn er, geiri sem er að sigla fram úr sjávarútveginum á þessu kjörtímabili og styrkja stöðu Íslands og stækka kökuna í samfélaginu. Það eru spennandi og verðmætar breytingar sem munu skipta máli fyrir íslenskt samfélag. Umræðan hér er á mjög lágum punkti þegar hún snýst um það sem vísað hefur verið til. Ég segi: Þessar breytingar munu skipta miklu máli fyrir íslenskt samfélag. (Forseti hringir.) Þær munu skipta miklu máli fyrir verðmætasköpun. Þær munu taka niður múra milli málaflokka og gera vel fyrir land og þjóð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)